Erlent

Fyrsti dómurinn í Rússarannsókninni væntanlegur í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Robert Mueller stýrir rannsókn á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016.
Robert Mueller stýrir rannsókn á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016. Vísir/Getty
Alríkisdómstóll í Washington-borg kveður að líkindum upp fyrsta dóminn  vegna Rússarannsóknarinnar svonefndu í dag. Hollenskur samstarfsmaður fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta játaði sig sekan um að hafa logið að alríkislögreglu Bandaríkjanna.

Alex van der Zwaan laug um störf sín í Úkraínu með Paul Manafort og Rick Gates, fyrrverandi kosningastjórum Trump. Van der Zwaan hefur sjálfur engin tengsl við framboðið, að sögn fréttastofu ABC-sjónvarpsstöðvarinnar. Manafort og Gates eru báðir ákærðir í tengslum við rannsóknina en Gates er sagður vinna með saksóknurum.

Í gögnum málsins kemur fram að van der Zwaan og Gates hafi fundað með viðskiptafélaga sem var rússneskur fyrrverandi leyniþjónustumaður síðustu mánuðina fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.

Hámarksrefsing fyrir brot van der Zwaan, sem er tengdasonur rússnesks auðjöfurs, er fimm ára fangelsi en yfirleitt krefjast saksóknarar í mesta lagi hálfs árs fangelsisdóms.

Rússarannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, beinist að tilraunum rússneskra stjórnvalda til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016 og hvort að þau hafi átt í samráði við framboð Trump.


Tengdar fréttir

Repúblikanar samþykkja að hætta Rússarannsókn

Þingnefnd sem rannsakaði afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 hefur samþykkt að ljúka rannsókninni og birta skýrslu um niðurstöðurnar. Demókratar gagnrýna ákvörðunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×