Innlent

Segir embættismannaelítu hafa dansað trylltasta dansinn

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Ragnar Þór er harðorður í garð embættismanna.
Ragnar Þór er harðorður í garð embættismanna. VÍSIR/STEFÁN
Formaður VR segir embættismannaelítuna hafa dansað trylltan dans í sjálftöku síðustu mánuði. Hann segir nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar blauta tusku framan í verkalýðshreyfinguna. VR sendi frá sér harðorða tilkynningu í gær og komst þar í hóp fjölmargra aðila sem gert hafa athugasemdir við fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í vikunni. 

„Þessi fjármálaáætlun gefur til kynna að það eigi ekkert að bregðast við þessari grafalvarlegu stöðu sem komin er upp á vinnumarkaði. Heldur virðist þetta vera enn ein blauta tuskan sem verið er að senda verkalýðshreyfingunni,“ segir Ragnar Þór.

Hann gagnrýnir flata 1% skattalækkun sem boðuð er harðlega og telur að rétt hefði verið að hækka frekar persónuafslátt.

„Síðan erum við með hækkanir á eldsneyti til dæmis sem munu koma sér illa fyrir þá sem eru með verðtryggð húsnæðislán og svosem líka þá sem eru á leigumarkaði, með áhrifum á vísitöluna,“ segir Ragnar.

Hann gefur lítið fyrir allt tal um stöðugleika, og telur að ríkisstjórnin hefði átt að setja fordæmi í áætluninni meðþví að vinda ofan af nýlegum ákvörðunum kjararáðs með einhverjum hætti.

„Embættismannaelítan hefur sópað til sín og dansað trylltasta dansinn í sjálftöku undanfarna mánuði og síðasta ár, til dæmis með ákvörðunum kjararáðs. Að vinda ekki ofan af því strax, þetta er það sem er lagt upp fyrir okkur sem erum að fara inn í næstu kjarasamninga,“ segir Ragnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×