Enski boltinn

Aron Einar sagður geta valið úr tilboðum frá fjórum löndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Getty
Samningur Arons Einars Gunnarssonar landsliðsfyrirliða hjá Cardiff City rennur út í sumar og Aron hefur ekki viljað skrifað undir nýjan samning við velska liðið. Það streyma nefnilega til hans tilboðin samkvæmt fréttum í enskum fjölmiðlum.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, er sagður hafa miklar áhyggjur af því að missa Aron Einar í sumar en íslenski miðjumaðurinn hafnaði samningi við velska félagið og ætlaði að sjá frekar til hvað væri í boði í sumar.

Aron Einar er á leiðinni með íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi og þar fær hann stóran glugga til að sýna sig og sanna.

Samkvæmt frétt í The Sun er fyrirliði íslenska landsliðsins með tilboð frá fjórum tyrkneskum félögum og þá er líka skrifað þar að búist er við því að lið í Grikklandi, Króatíu og bandarísku MLS-deildinni munu einnig bjóða Aroni Einari samning.





Aron Einar Gunnarsson er kominn aftur af stað eftir að hafa farið í aðgerða á ökkla í desember en Cardiff liðið er í baráttu um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Aron Einar er sagður vilja fá 40 þúsund pund í vikulaun komist Cardiff upp í deild þeirra bestu en það eru 5,6 milljónir íslenskra króna.

Tyrkneska félagið Besiktas er sagt vera tilbúið að bjóða okkar manni slíkan samning en dæmi um önnur áhugasöm félög eru AEK and Olympiacos frá Grikklandi og króatíska félagið Dinamo Zagreb.

Bandaríska deildin gæti heillað en eftir EM í Frakklandi 2016 þá var Aron Einar stærri stjarna í Bandaríkjunum en Gylfi Þór Sigurðsson. Víkingurinn vígalegi sem stjórnaði víkingaklappinu fór ekki framhjá Bandaríkjamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×