Fótbolti

Sjáðu sjálfsmarkið, stoðsendinguna og fiskaða vítið hjá Andra Rúnari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason með íslenska landsliðinu í Indónesíu.
Andri Rúnar Bjarnason með íslenska landsliðinu í Indónesíu. Mynd/KSÍ
Andri Rúnar Bjarnason var í sviðsljósinu þegar Helsingborg byrjaði tímabilið á 3-1 sigri á Öster í sænsku b-deildinni um helgina.

Andri Rúnar jafnaði markametið í efstu deild á Íslandi með Grindavík í Pepsi-deildinni í fyrra en fyrsta markið hans í sænsku b-deildinni var aftur á móti í vitlaust mark.

Andri Rúnar var þá reyndar búinn að eiga þátt í tveimur fyrstu mörkum Helsingborg. Hann átti fyrst stoðsendingu á Max Svensson og svo fór hann upp í skallaeinvígi eftir fyrirgjöf og sá með því til þess að miðverðir Öster náðu ekki að koma boltanum frá.

Max Svensson fékk fyrir vikið boltann í dauðafæri og skoraði sitt annað mark í leiknum en seinna markið hans kom í uppbótartíma seinni hálfleiks.

Í upphafi seinni hálfleiks varð Andri Rúnar hinsvegar fyrir því óláni að skalla hornspyrnu Öster í eigið mark.

Markvörður Helsingborg missti óvænt af boltanum og fipaði Andra Rúnar sem skallaði boltann í eigið mark á marklínunni.

Andri Rúnar bætti fyrir þetta með því að fiska vítaspyrnu og úr henni skoraði Darijan Bojanic  og innsiglaði með því 3-1 sigur Helsingborg.

Expressen hefur tekið saman helstu atriði leiksins og má sjá þau hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×