Fótbolti

Blaðamaður í LA líkir Zlatan við Muhammad Ali

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og Muhammad Ali.
Zlatan Ibrahimovic og Muhammad Ali. Samsett/Getty
Sænska knattspyrnustjarnan Zlatan Ibrahimovic er mættur til Los Angeles til að spila með liði Galaxy og í Hollywood borginni fá nú stórstjörnurnar jafnan að njóta sín.

Zlatan Ibrahimovic er með muninn fyrir neðan nefið og er óhræddur við að tala vel um sig og sín afrek. Það gæti fallið í kramið hjá fólkinu í LA ef marka má orð Dylan Hernandez, blaðamanns á Los Angeles Times.

„Hann er maður sem lætur allt flakka. Í Los Angeles snýst allt um persónuleika stjarnanna. Kobe Bryant og Shaquille O'Neal voru vinsælir, ekki aðeins af því að þeir voru góðir í körfubolta heldur einnig af því að þeir sögðu sínar skoðanir,“ sagði Dylan Hernandez í viðtali við Expressen.

„Fólkið er bara að bíða eftir stórstjörnu. Fólk hefur jafnan aðeins áhuga á fótbolta á fjögurra ára fresti þegar HM fer fram. Áskorun Los Angeles Galaxy er að auglýsa hann upp og sjá til þess að fólk þekki hann. Takist það þá á hann góða möguleika á því að verða stjarna,“ sagði Dylan Hernandez og hann líkir Svíanum við eina af stærstu íþróttastjörnum Bandaríkjamanna frá upphafi.

„Hann minnir mig svolítið á Muhammad Ali. Það eru til margir monthanar sem stunda ruslatal en málið með Zlatan er að hann er líka fyndinn. Hann getur talað vel um sjálfan sig en hann er líka með húmor. Þar minnir hann mig á Muhammad Ali. Hann var svo frábær náungi að þú hlóst með honum en vissir um leið aldrei hvort honum var alvara eða ekki,“ sagði Hernandez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×