Erlent

Meintur þræla­haldari og leið­togi sér­trúar­safnaðar hand­tekinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Keith Raniere hefur búið í felum í Mexíkó undanfarna mánuði
Keith Raniere hefur búið í felum í Mexíkó undanfarna mánuði Skjáskot
Bandaríska alríkislögreglan hefur handtekið Keith Raniere, alræmdan leiðtoga „sjálfshjálparhóps“ þar í landi, sem talinn er hafa stundað mansal og hneppt konur í kynlífsþrælkun í stórum stíl.

Saksóknarar segja Raniere hafa haft yfirumsjón með þaulskipulögðu „þrælakerfi,“ eins og það er orðað á vef breska ríkisútvarpsins, þar sem kvenkyns meðlimum sjálfshjálparhópsins Nxivm (borið fram Nexium) var gert að sænga hjá honum. Þá á hann einnig að hafa brennimerkt þær með nafninu sínu.

Raniere verður leiddur fyrir dómara í Texas í dag en hann hefur verið á flótta frá því í fyrra. Eftir að fyrrverandi meðlimir Nxivm ræddu starfshætti hans í fjölmiðlum ákvað Raniere að stinga af og var hann að endingu handtekinn í Mexíkó.

Í grein New York Times í október í fyrra greindi hópur kvenna frá framferði Raniere og varð það til þess að lögregluyfirvöld hófu formlega rannsókn á málinu. Raniere hefur þó neitað að hafa brotið af sér og segir að allar gjörðir hans hafi notið samþykkis annarra meðlima Nxivm. Hann vísaði jafnframt til „sjálfstæðrar rannsóknar“ sem ekki hafi sýnt fram á neitt misjafnt í hegðun hans.

Talið er að rúmlega 16 þúsund manns hafi leitað á náðir Nxivm frá árinu 1998 en hópurinn er sagður hverfast um mannúð og sjálfshjálp. Hann hefur reglulega ratað á síður blaðanna í gegnum árin, til að mynda árið 2009 þegar hópurinn flutti Dalai Lama til Bandaríkjanna og árið 2012 þegar Nxivm var sagður vera sértrúarsöfnuður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×