Enski boltinn

Sumarplanið hjá Jose Mourinho: Sex út og fimm inn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Það verða hreinsanir á Old Trafford í sumar samkvæmt fréttum í enskum blöðunum og Manchester Evening News telur sig vera komið með sumarplanið hjá knattspyrnustjóranum Jose Mourinho.

Jose Mourinho ætlar samkvæmt heimildum blaðsins að losa sig við sex leikmenn úr leikmannahópnum í sumar en staðinn mun hann styrkja liðið með fimm nýjum leikmönnum.

Leikmennirnir sem United er á eftir eru vinstri bakvörður í staðinn fyrir Luke Shaw, hægri bakvörður, miðvörður og svo tveir miðjumenn í staðinn fyrir þá Michael Carrick og Marouane Fellaini.

Manchester Evening News segir að Manchester United sé á eftir þeim Jorginho, miðjumanni frá Napoli og brasilíska landsliðsmanninum Fred hjá Shakhtar Donetsk, til að fylla í skörð þeirra Carrick and Fellaini.

Samningur Fred rennur ekki út fyrr en 2023 en samningur Jorginho rennur út 2020.

Mourinho hefur áhuga á því að bjóða í Toby Alderweireld, miðvörð Tottenham og þá er United einnig áhugasamt um vinstri bakverðina Alex Sandro hjá Juventus, Danny Rose hjá Tottenham og unglinginn Tierney hjá Celtic.

Það hefur einnig verið orðrómur um að United hafi forvitnast um Hector Bellerin, bakvörð Arsenal. Spánverjinn yrði þá framtíðar hægri bakvörður liðsins og myndi á endanum leysa af Antonio Valencia sem er orðinn 33 ára.

Jose Mourinho hefur þegar eytt stórum upphæðum í leikmenn eins og Paul Pogba og Romelu Lukaku en þarf að styrkja liðið enn frekar í sumar til að ná í skottið á nágrönnunum í Manchester City sem stungu alla af í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×