Erlent

Bret­land óskar eftir fundi í öryggis­ráðinu vegna á­rásarinnar á Skripal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Theresa May boðar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna árásarinnar á Skripal.
Theresa May boðar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna árásarinnar á Skripal. vísir/getty
Bretland hefur óskað eftir fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna árásarinnar á fyrrverandi njósnara Rússa, Sergei Skripal.

Frá þessu er greint á vef BBC en Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirbýr nú röð refsiaðgerða gegn Rússum eftir að frestur þeirra til þessa að útskýra hvers vegna eitrað var fyrir Skripal á breskri grundumeð taugaeitri sem rekja má til rússneskra yfirvalda rann út á miðnætti.

Að því er fram kemur á vef Guardian fundaði May í morgun með breska þjóðaröryggisráðinu og lagði þar fram tillögur sínar um refsiaðgerðirnar en eftir um klukkustund mun hún svo kynna þær í breska þinginu.

Á mánudag sagði May að hún teldi það afar líklegt að Rússar bæru ábyrgð á árásinni á Skripal og dóttur hans Yuliu en eitrað var fyrir þeim í enska bænum Salisbury í síðustu viku. Annað hvort hefðu rússnesk yfirvöld eitrað sjálf fyrir feðginunum eða þá að þau hefðu komið því í kring að eitrið kæmist í hendur tilræðismannanna.

Rússar hafa lýst því yfir í dag að þeir muni bregðast við því af hörku ef Bretland grípur til refsiaðgerða gegn þeim vegna Skripal. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í morgun að ásakanir Breta í garð Rússa varðandi árásina á Skripal væru pólitískur leikur, gerður til að afvegaleiða alþjóðasamfélagið. Hann sagði að Rússa myndu ekki leyfa slíkan leik.

Þá sagði Lavrov að Rússar hefðu ekki haft neina ástæðu til að eitra fyrir Skripal og benti á aðila sem hefðu áhuga á því að dreifa óhróðri um Rússland.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem breska utanríkisráðuneytið hefur tekið saman um um það sem það kallar yfirgang rússneskra yfirvalda.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×