Fótbolti

Raðar inn mörkum á Ítalíu en íslensku strákarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur af honum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauro Icardi fagnar marki með Internazionale.
Mauro Icardi fagnar marki með Internazionale. Vísir/Getty
Argentínski framherjinn Mauro Icardi hefur skorað átján mörk fyrir Internazionale í ítölsku deildinni á þessu tímabili og er annar markahæsti maðurinn í Seríu A. Íslenska landsliðið þarf þó ekki að hafa miklar áhyggjur af því að þurfa stoppa þennan öfluga framherja á HM ef marka má fréttir frá Argentínu.

Fjölmiðlakonan, Luciana Rubinska á Fox Sports Argentina, hefur heimildir fyrir því að landsliðsþjálfarinn Jorge Sampaoli, ætli ekki að velja einn heitasta sóknarmann ítölsku deildarinnar í HM-hóp sinn.





Tvær ástæður eru gefnar upp í frétt Lucianu. Frammistaða Mauro Icardi upp á síðakstið (hefur verið meiddur) og slæmt samband hans og annarra leikmanna í argentínska landsliðinu.

Mauro Icardi hefur skorað 18 mörk í 22 deildarleikjum í vetur en sextán af mörkum hans komu í fyrstu fimmtán leikjunum. Icardi spilaði síðasta deildarleik sinn í lok janúar en var á bekknum hjá Internazionale um síðustu helgi.

Jorge Sampaoli mun í dag tilkynna landsliðshóp sinn fyrir vináttulandsleiki á móti Ítalíu og Spáni og þar verður hvorki Mauro Icardi eða Juventus-maðurinn Paulo Dybala sem hefur líka verið að glíma við meiðsli.





Mauro Icardi er 25 ára gamall og kæmist líklega í flesta aðra landsliðshópa á HM í Rússlandi. Sögusagnir eru um að samband hans við Wöndu Nara, kærustu fyrrum leikmanns í landsliðinu, hafi gert lítið fyrir liðsandann í argentínska landsliðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×