Fótbolti

Fylkir skellti FH

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Vísir / Ernir
Þrír leikir fóru fram í dag í fyrstu umferð A- deildar Lengjubikarsins.

Hæst bar að leik pepsi-deildar liðanna FH og Fylkis í riðli 4. Leikurinn var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 og er honum nýlokið.

Fyrri hálfleikur var opinn og skemmtilegur og skiptust liðin á að sækja. Árbæingar komust yfir á 12. mínutu og var Hákon Ingi Jónson þar að verki. Hinn skoski Steve Lennon jafnaði metin stuttu síðar fyrir Hafnfirðinga eftir klaufagang í vörn Fylkis.

Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós í fyrri hálfleik og var staðan því jöfn, 1-1, þegar að liðin gengu til búningsherbergja. 

Það leit allt út fyrir það að liðin myndu skipta með sér stigunum en Ragnar Bragi Sveinsson var á öðru máli. Skoraði hann sigurmarkið fyrir Fylki á 88. mínútu eftir laglega sendingu Hákons Inga. 

Fylkir tyllir sér því á topp riðils 4 en FH eru á botninum án stiga. 

Fyrr í dag unnu norðanmenn í KA þægilegan sigur á liði Magna frá Grenivík, 2-0. Leika þau lið í riðli 2 í A- deild Lengjubikarsins. Markaskorar KA voru táningarnir Sæþór Olgeirsson (19) og Daníel Hafsteinsson (18). 

Þá unnu tíu leikmenn Hauka Leikni Reykjavík í Egilshöll, 4-1, í riðli 3. Daði Snær Ingason, 19 ára, kom inná í liði Hauka og skoraði síðustu tvö mörk þeirra.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×