Erlent

Kjarn­orku­vísinda­menn hand­teknir vegna Bitcoin-graftar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Virði Bitcoin hefur hríðfallið að undanförnu eftir að hafa verið í hæstu hæðum fyrir nokkrum vikum.
Virði Bitcoin hefur hríðfallið að undanförnu eftir að hafa verið í hæstu hæðum fyrir nokkrum vikum. Vísir/Getty

Lögregluyfirvöld í Rússlandi hafa handtekið fjölmarga kjarnorkuvísindamenn sem störfuðu við háleynilega kjarnorkuvopnaframleiðslustöð í Rússlandi. Eru þeir grunaðir um að hafa notað ofurtölvur til þess að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin. BBC greinir frá.

Talað er um að „grafa upp“ Bitcoin og aðrar rafmyntir en með því er átt við að tölvur eru notaðar til að leysa flóknar stærðfræðiformúlur sem þurfa að liggja fyrir þegar ný mynt er gefin út. Fyrir það fæst hluti af hinni nýslegnu mynt.

Eru vísindamennirnir meðal annars grunaðir um að hafa notað öflugust ofurtölvu Rússlands til verksins. Upp komst hins vegar um Bitcoin-gröftinn þegar vísindamennirnir tengdu ofurtölvuna við internetið. Vegna öryggisráðstafana á tölvan aldrei að vera tengd internetinu og urðu öryggisverðir því varir við tilraunir vísindamannanna. Var lögreglu gert viðvart og voru mennirnir handteknir.

Eftir miklar verðhækkanir á síðasta ári hefur áhugi á Bitcoin aukist mikið. Var greint frá því á síðasta ári að um tuttugu erlend fyrirtæki sem stunda Bitcoin-námastarfsemi hafa samið við Advania um að leigja aðstöðu í gagnaveri fyrirtækisins í Reykjanesbæ.

Telja má líklegt að vísindamennirnir hafi ætlað sér að hagnast á þessum miklu verðhækkunum en virði Bitcoin margfaldaðist á síðasta ári. Eftir að náð hápunkti í desember þegar eitt Bitcoin var virði 20 þúsund dollara, um tveggja milljóna króna, hefur orðið töluverð verðlækkun á mörkuðum. Í dag er eitt Bitcoin metið á um átta þúsund dollara, um átta hundruð þúsund króna.


Tengdar fréttir

Fjámálaeftirlitið varar við rafmyntum

Fjármálaeftirlitið telur sérstaka ástæðu til þess að vara almenning við þeirri "miklu áhættu“ sem fylgir viðskiptum með rafræna gjaldmiðilinn Bitcoin. Neytendur eigi ekki að hætta fjármunum sem þeir mega ekki við að tapa í fjárfestingar í gjaldmiðlinum, nema þá að mjög vel athuguðu máli.

Segir að Bitcoin sé bóla sem muni springa fyrr eða síðar

Bitcoin er bóla sem mun springa fyrr eða síðar. Þetta segir dósent við Háskóla Íslands. Engin raunveruleg verðmæti búi að baki gegndarlausri styrkingu gengisins, önnur en von fjárfesta um áframhaldandi hækkun. Gengi Bitcoin hefur lækkað í vikunni eftir gríðarlegar hækkanir síðustu mánaða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.