Innlent

Byrjaðir að nota nafnið Vilborg á nýju ferjuna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, við Herjólf í Hafnarfirði í dag.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, við Herjólf í Hafnarfirði í dag. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Ný Vestmannaeyjaferja fær nafnið Vilborg, ef smíðanefnd fær að ráða. Bæjarstjóri Vestmannaeyja vill halda Herjólfsnafninu. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Nýja ferjan er nú í smíðum í skipasmíðastöðinni Crist í Gdynia í Póllandi en áformað er að hún komi til landsins síðsumars. Bæjarstjórnin í Eyjum hefur nú fengið veður af því að til standi að Vestmannaeyjaferjan fái nýtt nafn. 

„Það kom svolítið aftan að okkur. Við höfðum ekki hugmynd um að það væru uppi einhver áform um að breyta um nafn á ferjunni,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. 

Raunar er málið komið svo langt að það er byrjað að nota nýja nafnið. 

„Það er náttúrlega verið að smíða þetta skip og það þarf að skrá það og skrá vélar og parta í það. Þannig að það þarf að fá nafn og nafnið sem þeir eru byrjaðir að nota er nafnið Vilborg. En að sjálfsögðu getur eigandinn bara ráðið því hvað hann kallar skipið.“ 

-Þannig að óbreyttu, þá mun hún heita Vilborg? 

„Að óbreyttu mun hún heita Vilborg. Það er svona það sem smíðanefndin hefur ákveðið. En smíðanefndin ein og sér ræður þessu ekki. Það er væntanlega ráðherra sem tekur endanlega afstöðu,“ svarar bæjarstjórinn.

Svona mun nýja ferjan lita út, samkvæmt tölvugerðri mynd frá skipasmíðastöðinni.
Forn sögn er um að dóttir landnámsmannsins Herjólfs hafi heitið Vilborg. 

„Maður skilur alveg þessi rök sem þarna liggja til grundvallar. Þetta er ný kynslóð. Þetta er annarskonar þjónusta heldur en hingað til hefur verið veitt. 

Og mörgum, sérstaklega af yngri kynslóðinni, finnst kannski komin ástæða til að feðraveldið gefið eitthvað eftir og að ný Vestmannaeyjaferja heiti kvenmannsnafni. 

En kannski er það til marks um hvað ég er orðinn gamall, bráðum hálfrar aldar, að sjálfur er ég nú hrifnastur af nafninu Herjólfur og hefði gjarnan viljað halda því.“ 

Elliði segir búist við því að nýja ferjan komi til Íslands í lok ágúst eða byrjun september. 

„Svona persónulega fyndist mér eðlilegt að það yrði leitað til bæjarbúa um hvað þeim finnst að ferjan eigi að heita. Mig grunar að þetta íhaldssama samfélag myndi velja nafnið Herjólf.“ 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Verður nýr Herjólfur látinn heita Vilborg?

Fjörug umræða er hafin meðal Eyjamanna um nafn á nýrri Vestmannaeyjaferju eftir að staðarmiðill sagði frá orðrómi um að ráðamenn gætu hugsað sér annað nafn en Herjólf.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.