Fótbolti

Heimir: Það verður enginn hálshöggvinn fyrir þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, segir að leikurinn á móti Indónesíu í dag hafi verið með þeim skrýtnari enda aðstæður sérstakar og mótherjinn landslið sem var valið á netinu..

„Það var smá súrealísk stemmning hérna og ég hef aldrei séð svona rigningu áður,“ sagði Heimir eftir leikinn en það rigndi mikið á meðal leiknum stóð og stórir pollar mynduðust á vellinum á augabragði.

„Þetta var líka kaótískt og andstæðingurinn ekkert sérstakur. Þetta var því allt mjög skrýtið,“ sagði Heimir.

„Við gerðum ekki það sem við ætluðum okkur að gera í fyrri hálfleik en það er bara þannig að þegar þú færð tíma á boltann og þú ferð að taka of margar snertingar þá verður leikurinn hægur og svolítið fyrirséður. Strákarnir hættu að taka hlaupin sem þeir áttu að taka af því að boltinn kom aldrei í fyrsta,“ sagði Heimir.

„Við vorum ekkert ánægðir í hálfleik með það sem þeir voru að gera en við vorum ekkert hræddir um að tapa leiknum hinsvegar. Veðrið þvingaði okkur til að fara í lengri bolta og taka þessi hlaup sem þarf. Þó að aðstæðurnar hafi verið hörmung í seinni hálfleik þá skoruðum við samt fimm mörk. Það er það sem telur í fótbolta ,“ sagði Heimir en er hægt að dæma leikmenn eftir leik í svona aðstæðum?

„Það er auðvitað ekki hægt og það gat enginn leikmaður sýnt sitt besta í svona leik. Það verður enginn hálshöggvinn fyrir þennan leik eða hafinn upp til skýjanna. Leikurinn fer ekki í neinar sögubækur en þetta er búinn að vera flottur tími hjá okkur hér. Það voru flottar æfingar hjá okkur og við flottar aðstæður. Það var svolítil skömm að þurfa lenda í þessu akkurat núna,“ sagði Heimir og vísar þar til dembunnar og bleytunnar sem tók öll völd á vellinum.

„Við höfum verið ofboðslega ánægðir með hópinn í heild sinni, bæði á æfingunum en líka fyrir utan þær. Við erum búnir að vera með mikið af fundum um allskonar hluti. Það er mikið að meðtaka fyrir þessa stráka og það reynir á þá í þessum leik sem verður eftir þrjá daga,“ sagði Heimir.

„Það verður allt annar andstæðingur því það verður lið sem hefur einhvern leikstíl, samæfingu og svo framvegið. Þeir eru með þjálfara sem er búinn að vera með þá í svolítinn tíma. Það verður allt annar og miklu erfiðari andstæðingur,“ sagði Heimir.

„Þetta var landslið sem var valið af fólkinu í landinu. Hér búa 220 milljónir manna og þetta var valið á netinu. Þetta eru þeir leikmenn sem voru búnir að vera bestir í deildinni en er ekkert lið því þeir hafa aldrei spilað saman og eru auk þess líklega aðalspaðarnir í sínum liðum,“ sagði Heimir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×