Innlent

Þjálfari skammaði leikmann fyrir að mæta of seint eftir að hafa nauðgað henni

Kjartan Kjartansson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Alls skrifa 462 íþróttakonur undir yfirlýsingu um kynferðisofbeldi og áreitni. Henni fylgja 62 reynslusögur kvenna í íþróttum.
Alls skrifa 462 íþróttakonur undir yfirlýsingu um kynferðisofbeldi og áreitni. Henni fylgja 62 reynslusögur kvenna í íþróttum. Vísir

Þjálfari nauðgaði kvenkyns leikmanni sínum að morgni leikdags og skammaði hana svo fyrir að mæta of seint á fund fyrir leikinn. Þetta er ein 62 reynslusagna sem íþróttakonur sendu frá sér í dag í tengslum við MeToo-umræðuna. Nokkrar frásagnir af nauðgunum þjálfara og landsliðsmanna eru þar á meðal.

Reynslusögurnar varða allt frá óviðeigandi athugasemdum og káfi upp í grófar árásir og nauðganir. Þeir brotlegu eru í mörgum tilfellum þjálfarar, leikmenn karlaliða, landsliðsmenn og í sumum tilfellum starfsmenn eða stjórnarmenn íþróttaliða. Í að minnsta kosti einu tilfelli kemur fram ásökun um kynferðislegt athæfi við barn.

Hér á eftir fara nokkrar af sögunum sem fylgdu yfirlýsingunni sem 462 íþróttakonur úr fjölda íþróttagreina skrifa undir. Hægt er að lesa allar sögurnar í heild sinni í fyrri frétt Vísis af yfirlýsingu íþróttakvennanna.

Nauðgað að morgni leikdags
Ein íþróttakvennanna lýsir því hvernig þjálfarinn hennar nauðgaði henni að morgni leikdags þegar þau voru ein í íþróttahúsinu.

„Það er leikdagur. Það er sunnudagsmorgun og því engir aðrir í íþróttahúsinu. Ég er ein á fundi með þjálfaranum áður en við áttum allar að funda saman fyrir leikinn. Hann nauðgar mér. Ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti,“ skrifar konan.

Hún segist hafa verið að drepast úr verkjum og blætt mikið þar sem hún reyndi að ná sér fyrir leikinn inni á salerni á móti búningsklefa liðsins á meðan liðsfélagarnir hlustuðu á tónlist og undirbjuggu sig inni í klefa.

„Ég reyndi bara að bíða eftir því að þessu tæki enda. Ég æli í klósettið og skelf öll. Mér er rosalega kalt. Ég þarf að skipta yfir í keppnisbúninginn en allt liðið mitt er inni í klefa og ég er með blóð á lærunum og stuttbuxunum.“

Á endanum fór hún og sótti fötin sín inn í klefa en þurfti að ganga fyrir framan alla liðsfélags sína sem urðu einskis varir. Eftir að liðsfélagarnir voru farnir á fund með þjálfaranum reyndi hún í örvæntingu að þrífa blóðið af sér við illan leik.

„Ég var svo skömmuð af þjálfaranum fyrir að koma einni mínútu of seint á fundinn,“ segir hún.

Handboltalandsliðsmaður sveiflaði typpinu framan í hana fimm ára gamla
Handboltakona sem keppti í 25 ár, meðal annars fyrir eitt sterkasta félagslið í heimi í Danmörku, lýsir fyrstu minningu sinni af ofbeldi þegar hún var barn að aldri.

„Fyrsta minning mín af ofbeldi er frá því að ég var 5 ára þar sem þá verandi unglingalandsliðsmaður í handbolta fann sig knúinn til að sveifla typpinu á sér framan í mig í ferð á Ítalíu þar sem ég var með í för. 16 ára var mér svo nauðgað af manni sem þá var landsliðsmaður í handbolta og 9 árum eldri en ég,” segir hún.

Þá segist hún eitt sinn hafa þurft að flýja skemmtistað þar sem hún var á tónleikum undan landsliðsþjálfara hennar sem áreitti hana stöðugt kynferðislega.

Nauðgunin sögð grennandi
Önnur saga fjallar um þjálfara sem nauðgaði leikmanni sínum. Konan segist hafa grennst töluvert eftir nauðgunina og hún hafi átt erfitt með að borða og sofa.

Sagði hún tveimur þjálfurum í landsliðsteymi frá því að henni hefði verið nauðgað til að þeir vissu hvað hún hefði verið að ganga í gegnum.

„Nokkrum dögum seinna kom einn aðstoðarlandsliðsþjálfarinn upp að mér og segir við mig að ég ætti að líta á björtu hliðarnar, kannski var gott að mér hafi verið nauðgað því nú væri ég svo grönn.”

Flúði bæjarfélagið undan þjálfarnum
Þjálfari þvingaði stúlku sem æfði hjá honum í kynferðislegt samband við sig. Konan endaði á að flýja bæjarfélagið undan þjálfaranum.

Hún segir að áreitið hafi byrjað með hrósi en síðar hafi það þróast út í daður, óviðeigandi snertingu og heitapottsferðir. Konan segir að hún hafi orðið að enn öðru fórnarlambi mannsins og gert allt til að þóknast honum.

Konan segist hafa reynt að slíta „sambandinu“ við manninn eftir að hún komst að því að hann hafði ræktað svipað samband við aðrar stúlkur. Eftir gleðskap til að fagna mótssigri segir hún að þjálfarinn hafi þvingað sér upp á sig.

„Það var ekki nóg að daðra, þukla og vera óviðeigandi heldur þvingaði hann mig í mjög brenglað samband með sér og setti punktinn yfir i-ið með að þvinga sér upp á mig.“

Eftir þetta þurfti konan engu að síður áfram að æfa undir þjálfaranum. Ári síðar hafi hún brotnað niður og flúið bæjarfélagið til að losna undan honum.

„Það vissu allir sem æfðu með mér hvaða mann hann hafði að geyma en enginn gerði neitt. Enginn sagði neitt. Allir stóðu hjá. Ekki nóg með það heldur voru menn í stjórn keppnisnefndar sem voru virkilega óviðeigandi með framkomu sinni í minn garð. Enda vissu þeir „Hvernig" stelpa ég var.“

Nauðgað af A-landsliðsmanni í handbolta
Ein sagan er um einstakling sem er í afrekshópi A-landsliðsins í handbolta. Átján ára handboltakona segir þar að í maí 2016 hafi þessi handboltamaður nauðgað sér.

„Þessi einstaklingur er og hefur verið í yngri landsliðum upp sinn feril og núna er hann í afrekshópi A-landsliðsins, sem hann var líka þegar að þetta gerðist. Ég er einnig og hef alltaf verið í yngri landsliðunum.“

Stúlkan segist eiga mjög erfitt með að fara á handboltaleiki vegna hræðslu við að rekast á hann

„Ég fæ kvíðakast vitandi að ég þarf að keppa í húsinu sem að hann æfir í og að hann gæti mögulega dæmt 3.flokks leiki hjá mér á móti hans liði. HSÍ hefur verið að byggja upp allt í sambandi við landsliðin, um daginn var haldinn sameiginlegur fyrirlestur fyrir öll landsliðin. Þegar ég labba að stelpunum í mínu landsliði sé ég hann sitja á borðinu við hliðina og hvernig hann horfði á mig. Ég sone-aði út og man lítið sem ekkert eftir þessum 4klst fyrirlestri sem ég sat á.“

Tvöfalt eldri þjálfari leitaði á fimmtán ára stúlku
Kona lýsir því hvernig hún hefur æft liðsíþrótt síðan hún var unglingur og segir að þeir þjálfarar sem hafi komið rétt fram við hana eða einhverja aðra úr liðinu séu í miklum minnihluta.

„Það er nánast undantekningalaust að þeir karlkyns þjálfarar sem við höfum verið með hafa komið fram á óviðeigandi hátt.“

Þá segir hún frá þjálfara sem leitaði á hana þegar hún var unglingur en hann er ennþá að þjálfa stúlkur.

„Ég var 16 ára í fyrsta skiptið sem þáverandi þjálfarinn minn káfaði á mér og hvíslaði að mér að ég væri svo ung og stinn og hvað hann væri til í mig. Hann var 15 árum eldri en ég og hélt áfram að þjálfa mig í 3 ár í viðbót. Ég hef aldrei þorað að segja neinum frá þessu og blokkaði þetta bara út. Hann er ennþá að þjálfa stúlkur.“

Nýlegasta dæmið um áreitni segir konan að hafa verið um síðasta þjálfarann sinn. Eftir að hann komst að því að hún hefði sagt skilið við kærasta sinn hafi hann byrjað að ganga á eftir henni. Virtist hann tengja samband þeirra á milli við framgang hennar í liðinu.

„Þetta var allt frá því að bjóðast til að halda mér félagsskap núna þegar ég væri einhleyp yfir í að segja mér að ef ég vildi vera með fast pláss í byrjunarliðinu þá væri alveg hægt að redda því ef ég væri til í að gera honum smá greiða. Hann hefur aldrei komið við mig eða reynt neitt fyrir utan það að tala við mig en þegar ég var búin að neita honum nokkrum sinnum var ég allt í einu dottin út úr byrjunarliðinu. Eina sem breyttist var það að ég neitaði honum.“

„Opnaðu ég ætla að ríða þér“
Þjálfari í ferð ungmenna sérsambands erlendis reyndi að brjóta sér leið inn á hótelherbergi kvenkyns fararstjóra. Hann hafði haft uppi alls kyns athugasemdir við konuna alla ferðina sem hún taldi mjög siðlausar.

„Af ótta við manninn var ég búin að setja kúst undir hurðarhúninn og færa laus húsgögn í herberginu fyrir hurðina til að komast hjá þeirri heimsókn. Lætin og orðin sem maðurinn hafði við fyrir utan hurðina þegar hann reyndi að brjóta sér ferð inn eru ekki til frásagnar en ásetningur hans var einn „opnaðu ég ætla að ríða þér“,“ segir konan.

Við millilendingu á heimleiðinni skildu leiðir þeirra og einn þjálfaranna kom ekki með heim til Íslands.

„Fyrir framan öll ungmennin fannst honum eðlilegt eftir að hafa hvatt mig með handabandi að beygja sig fram og þakka brjóstunum á mér sérstaklega fyrir góða ferð!“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.