Erlent

Zeman líklegastur til að vinna tékknesku forsetakosningarnar

Atli Ísleifsson skrifar
Milos Zeman forseti og helsti keppinautur hans, Jiri Drahos.
Milos Zeman forseti og helsti keppinautur hans, Jiri Drahos. Vísir/AFP
Tékkar ganga að kjörborðinu í dag og á morgun til að kjósa sér forseta. Kannanir benda til að líklegt sé að núverandi forseti, Milos Zeman, muni bera sigur úr býtum.

Ólíklegt þykir að hann nái hreinum meirihluta í fyrri umferð kosninganna og þurfi því að grípa til annarrar umferðar þar sem kosið verður á milli tveggja efstu úr þeirri fyrri.

Alls eru níu manns í framboði. Helsti keppinautur hins 73 ára fyrrverandi kommúnista, Zeman, er Jiri Drahos, óháður frambjóðandi og efnafræðingur sem áður gegndi stöðu forseta tékknesku vísindaakademíunnar.

Talar fyrir harðri innflytjendastefnu

Zeman tók við forsetaembættinu árið 2013 og hefur hann í kosningabaráttunni talað fyrir harðri innflytjendastefnu og að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framtíð Tékklands í Evrópusambandinu. Sjálfur styður hann þó aðild landsins að sambandinu.

Orðræða Zeman þykir svipa til fjölda leiðtoga í öðrum austurevrópskum ríkjum eins og Póllandi og Ungverjalandi. Hann hefur verið harðorður í garð múslima og kallað straum flóttafólks til álfunnar sem „skipulagða innrás“ inn í Evrópu og að „ómögulegt“ sé fyrir múslima að aðlagast.

Nýtur stuðnings Babis

Zeman nýtur stuðnings forsætisráðherrans Andrej Babis sem hefur kallað Zeman „eina merkustu persónu“ sem hafi komið fram frá falli kommúnismans árið 1989. Babis tók við sínu embætti í lok síðasta árs.

Komi til síðari umferðar fer hún fram dagana 26. og 27. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×