Erlent

Ætlaði ekki að drepa leikmenn Dortmund með sprengjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fullt nafn tilræðismannsins hefur ekki verið gefið út. Hann hefur aðeins verið nafngreindur sem Sergei W.
Fullt nafn tilræðismannsins hefur ekki verið gefið út. Hann hefur aðeins verið nafngreindur sem Sergei W. Vísir/AFP
Þýskur karlmaður af rússneskum ættum sem sprengdi sprengju við rútu þýska knattspyrnuliðsins Dortmund í fyrra segist ekki hafa ætlað að drepa leikmennina. Saksóknara grunar að maðurinn hafi ætlað að hagnast á því að hlutabréf í félaginu féllu í verði eftir árásina.

Spænski varnarmaðurinn Marc Bartra brákaðist á úlnlið og lögreglumaður varð fyrir heyrnartapi í sprengingunni. Maðurinn, sem nafngreindur hefur verið sem Sergei W, kom þremur sprengjum fyrir á leið rútunnar á leið á leik í Meistaradeild Evrópu við franska liðið AS Mónakó 11. apríl.

Maðurinn, sem er 28 ára gamall, viðurkenndi að hafa sprengt sprengjurnar þegar hann kom fyrir dómara í Dortmund, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hann neitaði hins vegar að ætlunin hafi verið að drepa leikmennina. Í ákæru er hann sakaður um 28 tilraunir til manndráps.

Dortmund er eina þýska knattspyrnuliðið sem er skráð á hlutabréfamarkaði. Saksóknarar segja að tilræðismaðurinn hafi gert söluréttarsamning á 26.000 hlutum í félaginu viku fyrir árásina með það fyrir augum að verðið hryndi eftir hana.

Þýskir fjölmiðlar að maðurinn hefði hagnast um hálfa milljón evra, jafnvirði um 62 milljóna íslenskra króna, hefði hlutabréfaverðið fallið í eina evru á hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×