Innlent

Enn á gjörgæslu eftir eldsvoða í Grafarvogi

Birgir Olgeirsson skrifar
Eldurinn kom upp í íbúð á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi í Bláhömrum í Grafarvogi í nótt.
Eldurinn kom upp í íbúð á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi í Bláhömrum í Grafarvogi í nótt. Vísir/Ernir
Einn er enn á gjörgæslu á Landspítala Íslands eftir í eldsvoða í Grafarvogi í nótt. Alls voru tólf fluttir á Landspítalann eftir að eldur kviknaði í einbýlishúsi í Mosfellsbæ og í íbúð á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi í Grafarvogi.

Stefán Hrafn Hagalín, upplýsingafulltrúi Landspítalans, segir í samtali við Vísi að stóri hluti þeirra sem var fluttur á Landspítalann vegna eldsvoðanna tveggja í nótt hafi verið útskrifaður.

Íbúinn sem býr í íbúðinni þar sem eldurinn kom upp í Bláhömrum í Grafarvogi var fluttur í lífshættu á Landspítalann og er enn á gjörgæslu.

Íbúðin þar sem eldur kom upp. Vísir/Ernir
Eldsins varð vart um klukkan hálf þrjú og logaði mikill eldur í íbúðinni, þegar slökkvilið kom á vettvang.

Reykkafarar fundu húsráðandann meðvitundarlausan og var hann fluttur i skyndingu á sjúkrahús. Sex aðrir íbúar hússins voru fluttir á slysadeild til rannsókna vegna gruns um reykeitrun, en engan þeirra mun hafa sakað alvarlega.

Tuttugu mínútum eftir að útkallið barst í Grafarvogi var tilkynnt um alelda einbýlishús í Mosfellsbæ. Þar hafði fimm manna fjölskylda sloppið naumlega út í gegn um glugga á síðustu stundu og var fólkið flutt á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar. Þar mun enginn þó hafa meiðst alvarlega og er talið að reykskynjari hafi bjargað því að ekki fór verr. Húsið er hins vegar brunnið til grunna.


Tengdar fréttir

Reyndi að vekja nágranna sína

Maðurinn, sem liggur í lífshættu á Landspítalnum eftir að eldur kviknaði í íbúð hans í Grafarvogi í nótt, reyndi að vekja nágranna sína áður en hann féll í yfirlið á gangi fjölbýlishússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×