Mótmælin hafa verið kölluð „flauelsbyltingin“. Þau hófust þegar Sersj Sargsjan, forseti Armeníu undanfarinn áratug, lét þingið kjósa sig sem næsta forsætisráðherra. Á sama tíma var stjórnskipun landsins breytt til þess færa völd frá forseta til forsætisráðherra. Hann hrökklaðist frá völdum vegna mótmælanna í síðasta mánuði.
Flokkur Sargsjan er enn með meirihluta á þingi og kom í veg fyrir kjör Pasjinjan í síðustu viku. Hann hvatti mótmælendur þá til borgaralegrar óhlýðni. Í kjölfarið lokuðu stuðningsmenn hans götum í Jerevan. Mótmælin hafa þó farið friðsamlega fram.
Í dag tryggði Pasjinjan sér meirihluta atkvæða á þinginu. Hann hefur lofað að boða til nýrra kosninga um leið og aðstæður leyfa. Hann hafi ekki í hyggju að gerast þaulsetinn á valdastóli.
Ætlar ekki að ílengjast á valdastóli
Í ávarpi til stuðningsmanna sinna í hét hann því að verja mannréttindi í Armeníu og að binda enda á spillingu og kosningasvik.„Allir eru jafnir fyrir lögum. Engin mun njóta forréttinda í Armeníu. Það er allt og sumt. Punktur,“ sagði Pasjinjan.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að friðsöm bylting gegn einsflokksræði í fyrrum Sovétlýðveldi eins og sú sem nú á sér stað í Armeníu sé fordæmalaus. Tugir manna féllu til dæmis í miklum mótmælum gegn ríkisstjórn Viktors Janúkóvitsj í Úkraínu veturinn 2013 til 2014.
Sargsjan var talinn hallur undir stjórnvöld í Kreml. Rússnesk stjórnvöld hafa þó ekki gripið inn í mótmælin í Armeníu fram að þessu.