Í vikunni fjölluðum við um nemenda Menntaskólans við Sund sem stendur í kynleiðréttingarferli en fær ekki að heita nýju nafni sínu í gögnum skólans. Hann segir þungbært að vera sífellt kallaður kvenmannsnafni þegar hann líti á sig sem karlmann. Að hans sögn neiti skólastjóri skólans að breyta nafni hans í gögnum á meðan hann bíði eftir að Þjóðskrá taki nafnabreytingu hans gildri.
Önnur er saga Ólivers Elís, sem stundar nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Hann kom út sem transmaður árið 2017 og fékk nafni sínu breytt í gögnum skólans um leið og óskað var eftir því.
„Mjög fljótlega eftir að ég kom út sendi mamma tölvupóst á skrifstofu skólans, þar sem ég var ekki orðinn 18 ára á þeim tíma. Sama dag var þetta komið inn í kerfið þar. Þetta var alls ekkert vandamál og voru allir tilbúnir að hjálpa strax og eru enn allir tilbúnir að hjálpa mér í öllu,“ segir Óliver Elí Jónsson, nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík.

Óliver segir það mikinn létti að rétt nafn sé skráð í gögn skólans.
„Það er rosalega mikill léttir að geta mætt í skólann og vitandi að það er enginn að fara að ruglast neitt. Gögnin eru bara beint fyrir framan þau og því geta þau ekki notað neitt annað,“ sagði Óliver Elí.