Erlent

R. Kelly hent út af lagalistum Spotify

Kjartan Kjartansson skrifar
R. Kelly hefur meðal annars verið sakaður um að gera 14 ára stúlku að kynlífsþræl sínum.
R. Kelly hefur meðal annars verið sakaður um að gera 14 ára stúlku að kynlífsþræl sínum. Vísir/AFP

Tónlistarveitan Spotify hefur ákveðið að fjarlægja lög bandaríska tónlistarmannsins R. Kelly af lagalistum sem veitan raðar upp og mælir með við notendur sína. R. Kelly hefur lengi verið sakaður um kynferðislega misnotkun, meðal annars á táningsstúlkum.



Lög R. Kelly verða enn aðgengileg á Spotify þó að tónlistarveitan ætli ekki lengur að halda henni markvisst að notendum sínum. Talsmenn fyrirtækisins segjast vilja að lagalistar þess endurspegli gildi þess.



„Við ritskoðum ekki efni vegna hegðunar listamanns eða framleiðanda en við viljum að ritstjórnarákvarðanir okkar, það sem við veljum að setja á dagskrá, endurspegli gildi okkar,“ sagði talsmaður Spotify við breska ríkisútvarpið BBC.



Ákvörðunin um að taka lög R. Kelly af lagalistum Spotify byggir á stefnu tónlistarveitunnar um „hatursefni og hatursfulla hegðun“.



Kallað hefur verið eftir sniðgöngu á tónlist R. Kelly á samfélagsmiðlum að undanförnu vegna ásakana um kynferðisofbeldi gegn honum. Nýlega var hann meðal annars sakaður um að hafa gert fjórtán ára gamla stúlku að kynlífsþræl sínum. Hann hefur hafnað öllum ásökunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×