Grunur leikur á að tveir menn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í aðgerðum á mánudag hafi flutt inn verulegt magn af fíkniefnum með póstsendingum. Annar maður sem var handtekinn í aðgerðunum var sleppt eftir að í ljós kom að hann tengdist málinu ekki.
Greint var frá því í gær að tveir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eftir aðgerðirnar á mánudag. Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu, segir að mennirnir tveir hafi verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þeir sæta báðir einangrun í varðhaldinu.
Þeir eru grunaðir um innflutning á verulegu magni fíkniefna með póstsendingu. Grímur segist ekki geta gefið upp hvaða efni mennirnir hafi smyglað.
„Við erum bara ennþá á þeim stað að við erum ekki alveg búin að ná utan um það til að nefna það eða magnið,“ segir hann.
Grímur vill ekki staðfesta hvar mennirnir tveir voru handteknir. Hann segir þó að einn maður til viðbótar hafi verið handtekinn í húsakynnum Skáksambands Íslands í Faxafeni. Honum hafi þó verið sleppt strax en í ljós hafi komið að hann tengdist málinu ekki neitt. Skáksambandið tengist málinu heldur ekkert.
Heimildir fréttastofu Stöðvar 2 hermdu í gær að annar mannanna sem nú sitja í gæsluvarðhaldi hefði verið handtekinn á veitingastaðnum Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ á mánudag og að hann tengist staðnum. Grímur vill ekki staðfesta það.
Þá kom fram að sérsveit lögreglunnar hefði tekið þátt í aðgerðunum. Grímur segir að sérsveitin taki gjarnan þátt í aðgerðum af þessu tagi.
Grunaðir um fíkniefnasmygl með póstsendingum

Tengdar fréttir

Í gæsluvarðhald grunaðir um innflutning á talsverðu magni fíkniefna
Tveir karlmenn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gær vegna gruns um innflutning á talsverðu magni af fíkniefnum til landsins.