Gul viðvörun gefur til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög átakamiklu veðri, en slík viðvörun var sunnan til á landinu í gærkvöldi. Mikið hvassviðri var á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem undirrituð var stödd í nótt. Viðbragðsáætlun var í gildi hjá Þjóðhátíðarnefnd sem opnaði íþróttahúsið þar sem fjölmargir veðurbarnir gestir leituðu sér skjóls.
Sara Kristín Þorleifsdóttir var ein þeirra, en hún horfði á tjald sitt fjúka inn í nóttina.
„Efst á tjaldsvæðinu voru tjöld út um allt og mörg þeirra brotin. Það var mjög mikill vindur. Tjaldið mitt lagðist nánast saman þegar ég var inni í því. Við fórum og gistum í íþróttahúsinu þar sem allt var rennandi blautt eftir rigninguna á tjaldsvæðinu. Þegar við komum inn í húsið klukkan fimm í nótt var hellingur af fólki þar,“ segir Sara Kristín Þorleifsdóttir.

„Það var erfitt framan af, mikill vindur. Fólk virtist ekki ætla að láta hann neitt á sig fá og mætti vel í brekkuna. Við heldum okkar striki varðandi dagskránna þrátt fyrir veðurfar. Ég heyrði að það hefðu verið milli 300-400 manns sem leituðu sér skjóls inni í íþróttaheimili,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður Þjóðhátíðarnefndar.
Þá vill hann þakka þjóðhátíðargestum fyrir frábæra helgi.