Kristján Flóki Finnbogason kom inn á af varamannabekknum og skoraði í fyrsta leik sínum með nýja liði sínu Brommapojkarna um síðustu helgi. Hann var verðlaunaður með byrjunarliðssæti í dag en náði ekki að skora annan leikinn í röð.
Hafnfirðingurinn spilaði allan leikinn þegar Brommapojkarna sótti Örebrö heim í sænsku úrvalsdeildinni.
Það var markalaust í fyrri hálfleik en Eric Omondi kom gestunum í Brommapojkarna þegar seinni hálfleikur var nærri hálfnaður. Fleiri urðu mörkin ekki og 0-1 útisigur niðurstaðan.
Brommapojkarna náði sér þar í mikilvæg stig í fallbaráttunni. Liðið er sem stendur í 14. sæti, fyrsta fallsætinu, jafnt að stigum og Elfsborg sem á leik til góða.

