Erlent

Mafíósi gómaður eftir tvo áratugi á flótta

Samúel Karl Ólason skrifar
Rocco Morabito, eftir að hann var handtekinn í Úrúgvæ.
Rocco Morabito, eftir að hann var handtekinn í Úrúgvæ. Vísir/EPA
Ítalskur glæpamaður, sem hefur verið á flótta frá árinu 1994, hefur verið handtekinn í Úrúgvæ. Rocco Morabito var meðlimur Ndrangheta mafíunnar og var hann áður fyrr með gælunafnið „konungur kókaíns“ í Mílan. Hann var gómaður á ferðamannastaðnum Punta del Este á sunnudaginn, þar sem hann er sagður hafa búið í tíu ár.

Morabito var með falsað brasilískt vegabréf og notaðist hann við nafnið Francisco Capeletto. Talið er að hann hafi komið til Úrúgvæ árið 2002, en hann var dæmdur til 30 ára fangelsisvistar áður en hann fór á flótta.

Talið er að hann verði framseldur til Ítalíu á næstu mánuðum.

Samkvæmt frétt BBC fannst skammbyssa á heimili hans, þrettán farsímar og um 150 myndir af honum sem hægt væri að nota í vegabréf.

Ndrangheta mafían er sögð stjórna stórum hluta sölu kókaíns í heiminum. Morabito mun hafa flutt hundruð kílóa til Ítalíu frá Brasilíu. Lögmaður hans segir hann þó ekki hafa komið nærri glæðum frá árinu 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×