Viðar Ari Jónsson og Björn Bergmann Sigurðarson voru báðir á skotskónum í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Viðar Ari lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Brann þegar liðið vann 5-0 sigur á Sandefjord á heimavelli.
Viðar Ari kom inn á sem varamaður á 58. mínútu og í uppbótartíma skoraði hann framhjá Ingvari Jónssyni í marki Sandefjord. Fjölnismaðurinn gleymir því þessari frumraun væntanlega ekki í bráð.
Brann er í 3. sæti deildarinnar en ekkert lið hefur skorað meira (20 mörk) á tímabilinu en Viðar Ari og félagar.
Björn Bergmann skoraði mark Molde í 1-2 tapi fyrir Sogndal. Þetta var fjórða mark Björns Bergmanns á tímabilinu. Hann hefur auk þess lagt upp tvö mörk.
Óttar Magnús Karlsson var einnig í byrjunarliði Molde en var tekinn af velli eftir 62 mínútur. Molde er í 9. sæti deildarinnar.
Adam Örn Arnarson og Daníel Leó Grétarsson stóðu vaktina í vörn Aalesund sem vann 1-2 sigur á Viking á útivelli. Aron Elís Þrándarson er enn frá vegna meiðsla hjá Aalesund sem er í 6. sæti deildarinnar.
Rúnar Alex Rúnarsson er meiddur og lék ekki með Nordsjælland þegar liðið vann 4-1 sigur á SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni.
Viðar Ari skoraði framhjá Ingvari í frumrauninni
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
