Í kringum fimmtíu björgunarsveitarmenn leita í dag að Nika Begades, 22 ára hælisleitanda frá Georgíu sem féll í Gullfoss á miðvikudag.
Leitarsvæðið er frá Iðu, þar sem Stóra-Laxá rennur í Hvítá og upp úr. Davíð Már Bjarnason, fjölmiðlafulltrúi Landsbjargar, segir að straumvatnsbjörgunarfólk verði að störfum á svæðinu í dag og að notast verði við dróna úr lofti og báta.
Hann segir umfang leitarinnar jafnvel minna en í gær. Búið er að úthluta öllum verkefnum sem sett voru fyrir daginn og verður staðan síðan endurmetin í samráði við lögreglu.

