Innlent

Dregið úr leit við Gullfoss í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þyrla gæslunnar var aftur kölluð til leitarinnar við Gullfoss í gær.
Þyrla gæslunnar var aftur kölluð til leitarinnar við Gullfoss í gær. vísir/jói k.
Dregið verður úr leit í dag að manni sem féll í Gullfoss á miðvikudag. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þó átti eftir að ákveða nákvæmlega með hvaða hætti leit færi fram þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Að sögn lögreglu eru litlar líkur á að eitthvað finnist í bráð, nú þegar leitað hefur verið í talsverðan tíma. Leit næstu daga mun því einkennast af eftirliti.

Leitin í gær bar ekki árangur en lögregla segist hafa nokkra vissu fyrir því að maðurinn sé erlendur hælisleitandi. Leitað var fótgangandi, á bátum, með drónum og þá sveimaði þyrla Landhelgisgæslunnar yfir leitarsvæðinu. Net var sett í ána upp úr hádegi en leit var hætt um kvöldmatarleytið. Segir lögregla leitarsvæðið afar erfitt og það torveldi leitina að manninum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn frá Georgíu en lögregla vill ekki upplýsa um nafn hans fyrr en haft hefur verið samband við aðstandendur. Að sögn lögreglu flækir það þó ferlið að aðstandendur hans eru allir erlendis.  
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.