Erlent

Trump heimilar ítarlegar bakgrunnsskoðanir á innflytjendum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump með tilskipunina. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna horfir á.
Donald Trump með tilskipunina. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna horfir á. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði í dag undir tilskipun þess efnis að yfirvöldum sé heimilit að leggjast í ítarlegar bakgrunnsskoðanir á innflytjendum sem vilja flytja til Bandaríkjanna.

„Við setjum á fót ítarlegar bakgrunnsskoðanir til þess að koma í veg fyrir að róttækir íslamskir hryðjuverkamenn geti komið inn í Bandaríkin,“ sagði Trump í varnarmálaráðuneytinu þar sem hann skrifaði undir tilskipunina.

„Við viljum ekki fá þá hingað og við viljum tryggja að við hleypum ekki þeim inn í landið sem við erum að berjast gegn,“ sagð Trump.

Ekki hefur verið gefið upp hvað tilskipunin felur nákvæmlega í sér en fjölmiðlar ytra hafa greint frá því að samkvæmt tilskipuninni verði sett á tímabundið bann á að flóttamönnum verði hleypt inn í Bandaríkin sem og algjört bann á innflytjendur frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta.

Ótímabundið bann á móttöku flóttamanna frá Sýrlandi

Þetta er  í samræmi við kosningaloforð Trump þar sem hann hét því að takmarka fjölda innflytjenda frá ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta.

„Við viljum bara hleypa þeim í gegn sem við vitum að muni styðja við ríki okkar og elska íbúa þess,“ sagð Trump.

Á vef Guardian segir að blaðamenn þess hafi fengið að skoða uppkast af tilskipunnni þar sem kemur fram að 120 daga bann verði sett við móttöku flóttamanna og ótímabundið bann á móttöku flóttamanna frá Sýrlandi.

Þá muni Bandaríkin ekki úthluta íbúum Írak, Íran, Líbýu, Sómalíu, Súdan og Jemen vegabréfsáritun næstu 30 daga.

Skömmu áður en Trump skrifaði undir tilskipunina var James Mattis settur í embætti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þá skrifaði Trump einnig undir tilskipun þar sem því er heitið að efla bandaríska herinn til muna.


Tengdar fréttir

Múrinn hans Donald Trump: Um hvað snýst málið?

Bandaríkjaforseti skrifaði í vikunni undir tilskipun um að framkvæmdir skuli hefjast við byggingu ókleifs múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó eins fljótt og auðið er.

Trump forseti stendur í ströngu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekar að Mexíkó verði að greiða fyrir landamæramúrinn og boðar stórtækar aðgerðir gegn innflytjendum og flóttafólki. Forseti Mexíkó hefur hætt við heimsókn til Trumps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×