FETAR, Félag eigenda torfæruökutækja í atvinnurekstri, sem eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við ferðaþjónustu á breyttum ferðaþjónustubifreiðum, birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem sem fyrirhuguð boð og bönn eru hörmuð.

Samtökin segja að tillagan haldi ekki vatni í nokkru samhengi. „Jafnframt má benda meðlimum stýrihópsins á að 36" dekk sjást varla á nokkrum jeppabifreiðum í dag, sérstaklega ekki á jeppabifreiðum í farþegaflutningum. Ólíklegt er að sú dekkjastærð eigi við í því tilviki þar sem verið er að fjalla um akstur með ferðamenn, og því virðist sem stýrihópurinn hafi freistast til að teygja sig lengra en erindi hans nær hvað þetta varðar.“
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, skipar hópinn og segir að búið sé að vinna mjög vel með hagsmunaaðilum og íbúasamtökum. „Í þeim tillögum sem verða lagðar fram í næstu viku er gert ráð fyrir meiri takmörkunum en nú eru þegar í gildi um mjög stóra og breytta jeppa. Þá mun bannið gilda fyrir þá bíla sem eru stækkaðir fyrir ferðamennsku en ekki þá sem eiga sinn fjallabíl fyrir sig og sína.“