Erlent

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna varar við landamæraeftirliti sem byggir á fordómum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir að leggja þurfi áherslu á að landamæraeftirlit mismuni ekki fólki.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir að leggja þurfi áherslu á að landamæraeftirlit mismuni ekki fólki. Vísir/AFP
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segir að leggja þurfi áherslu á að landamæraeftirlit mismuni ekki fólki. Talið er að með yfirlýsingu sinni vilji Guterres gagnrýna tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem meinar ríkisborgurum sjö múslimalanda að ferðast til Bandaríkjanna.

Tilskipunina undirritaði Trump síðastliðinn föstudag og sagði að um tímabundar aðgerðir væri að ræða. Hún meinar öllum ríkisborgurum Íraks, Írans, Líbíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens inngöngu í Bandaríkin og gildir slíkt einnig um fólk frá þessum ríkjum sem eru handhafar græna kortsins.

„Lönd hafa rétt á, og jafnvel ber þeim skylda til, að haga landamæraeftirliti á þann hátt að hryðjuverkasamtök nái ekki að skjóta þar rótum,“ sagði Guterres í dag.

„Þetta má þó ekki byggja á nokkurs konar mismunun byggðri á trúarbrögðum, kynþætti eða þjóðerni. Það stríðir gegn þeim grundvallargildum sem samfélög okkar eru byggð á.“

Þó að Guterres hafi ekki nefnt Donald Trump Bandaríkjaforseta á nafn er talið að yfirlýsing Guterres sé viðbrgað við tilskipun Trump sem meinar ríkisborgunum sjö múslimalanda að ferðast til Bandaríkjanna.

„Aðgerðir sem eru gerðar í blindni, en ekki byggðar á haldbærum gögnum, eiga það til að vera árangurslausar vegna þess að háþróuð hryðjuverkasamtök geta sneitt hjá þeim.“ sagði Guterres.

Hann varaði einnig við því að aðgerðir sem byggðar eru á mismunun gæti vakið ótta og reiði sem gæti greitt veginn fyrir áróður hryðjuverkasamtaka.


Tengdar fréttir

Íslensk stjórnvöld mótmæla tilskipun Trump

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur komið á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×