Fótbolti

Ronaldo leikmaður ársins

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Cristiano Ronaldo fær verðlaun sín fyrir að vera í úrvalsliði heimsins í Lundúnum í kvöld
Cristiano Ronaldo fær verðlaun sín fyrir að vera í úrvalsliði heimsins í Lundúnum í kvöld vísir/getty
Cristiano Ronaldo var í kvöld verðlaunaður af alþjóðaknattpspyrnusambandinu, FIFA, sem besti leikmaður ársins.

Valið er byggt á atkvæðum fyrirliða allra landsliða heims, landsliðsþjálfara, úrvaldra fjölmiðlamanna og kosningu á Fifa.com. Vega atkvæði þessara fjögurra flokka öll jafnt, eða 25 prósent hver.

Ronaldo spilar með Spánar- og Evrópumeisturum Real Madrid. Hann vann verðlaunin 2008, 2013, 2014, í fyrra og nú árið 2017.

Besta knattspyrnukona ársins var valin Lieke Martins. Hún var valin besti leikmaður Evrópumótsins í Hollandi í sumar og besta knattspyrnukona Evrópu á svipuðu verðlaunahófi UEFA fyrr í ár. Martins spilar með Barcelona og hollenska landsliðinu.

Besta mark ársins var sporðdrekaspyrna Olivier Giroud fyrir Arsenal á móti Crystal Palace á Nýársdag 2017. Giroud tileinkaði pabba sínum verðlaunin. Markið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Zinedine Zidane var valinn besti þjálfari karlaliðs, og varð með því fyrstur til þess að verða valinn bæði besti leikmaður heims og svo síðar besti þjálfari heims.

Zidane þjálfar Real Madrid sem urðu í vor fyrsta liðið til þess að verja Evrópumeistaratitil sinn þegar liðið hafði betur gegn Juventus í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Besti þjálfari kvennaliðs var Sarina Wiegman sem leiddi Hollendinga til sigurs á Evrópumótinu í sumar. Hún hafði áður orðið fyrst kvenna til þess að þjálfa atvinnumannalið karla í Hollandi.

Úrvalslið ársins skipa Gianluigi Buffon, Marcelo, Sergio Ramos, Leonardo Bonucci, Dani Alves, Luka Modric, Toni Kroos, Andres Iniesta, Lionel Messi, Neymar og Cristiano Ronaldo.

Francis Kone frá Togo fékk háttvísiverðlaun FIFA fyrir það að hafa fjórum sinnum bjargað lífi annars fótboltamanns á vellinum með skyndihjálp, Gianluigi Buffon var valinn markvörður ársins og stuðningsmenn Celtic fengu stuðningsmannaverðlaunin fyrir það hvernig þeir heiðruðu 50 ára afmæli Evrópusigurs Celtic í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×