Erlent

Náinn ráðgjafi Trump til rannsóknar vegna samskipta við Rússa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. vísir/getty
Náinn ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta er nú til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI vegna gruns um að hann hafi verið viðriðinn samskipti starfsmanna Trump í kosningabaráttunni við Rússa.

Frá þessu er greint á vef Washington Post í kvöld en þar segir að þetta sýni að rannsóknin nái alla leið inn í Hvíta húsið og upp í efstu stöður ríkisstjórnar Trump. Ekki kemur fram í fréttinni hver þessi ráðgjafi er.

Aukinn kraftur fer nú að færast í rannsóknina auk þess sem hún hættir að vera jafn hulin almenningi og hún hefur verið hingað til þar sem rannsakendurnir fara að taka viðtöl og kalla fólk í vitnaskýrslur.

Þrátt fyrir það að þessi náni samstarfsmaður Trump sé nú til rannsóknar leggja heimildamenn Washington Post engu að síður áherslu á það að rannsóknin beinist fyrst og fremst að fyrrverandi samstarfsfólki forsetans, til að mynda þeim Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump, og Paul Manafort sem stýrði kosningabaráttunni.

Flynn sagði af sér í febrúar eftir að í ljós kom að hann hefði logið um samskipti sín við rússneska sendiherrann Sergey Kislyak. Á meðal þeirra sem hafa viðurkennt að hafa átt í samskiptum við Rússa áður en Trump tók við eru þeir Jared Kushner, tengdasonur hans, Jeff Sessions, dómsmálaráðherra og Rex Tillerson utanríkisráðherra.

Fyrr í vikunni var skipaður sérstakur saksóknari fyrir rannsóknina, Robert S. Mueller, fyrrverandi forstjóri FBI. Tíu dagar eru síðan Trump rak James Comey, forstjóra FBI, úr embætti vegna Rússarannsóknarinnar en í kjölfarið átti hann fund með rússneskum embættismönnum.

Á þeim fundi á hann að hafa kallað Comey rugludall að því er New York Times greinir frá og sagt Rússunum að brottvikning hans úr starfi myndi minnka pressuna á því að rannsóknin héldi áfram.


Tengdar fréttir

Vandræði Trumps farin að smitast út á markaðinn

Miklar lækkanir urðu á bandarískum hlutabréfamarkaði í vikunni. Vandræði Trumps hafa neikvæð áhrif. Lilja Alfreðsdóttir segir markaðinn ráðast af því hvernig þingið tekur í efnahagsstefnu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×