Innlent

Trump fylgist með atkvæði Íslands

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að fylgjast með því hvar atkvæði þjóða lenda hjá Sameinuðu þjóðanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að fylgjast með því hvar atkvæði þjóða lenda hjá Sameinuðu þjóðanna. Vísir/AFP
Íslensk stjórnvöld hafa fengið sent bréf frá Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætli sér að fylgjast grannt með því hvaða lönd greiði atkvæði gegn Bandaríkjunum á allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna á morgun. Helstu bandalagsríki Bandaríkjanna hafa fengið sambærilegt bréf.

Þetta hefur fréttastofa eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Á þinginu verður þess krafist að Trump snúi við ákvörðun sinni um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Bloomberg fréttastofan hefur eftir ónafngreindum erindreka að Haley hafi sagt sér að hverju atkvæði gegn Bandaríkjunum verði tekið persónulega.

Íslenskir embættismenn munu nú ræða við fulltrúa hinna Norðurlandanna og í kjölfar þess ákveða hvernig Ísland ráðstafar atkvæði sínu.Vísir/E.Ól
Nokkur araba- og múslimaríki fóru fram á fundinn eftir að Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu til að fella tillögu Egypta um afturköllun ákvörðunarinnar í gær. Hin fjórtán ríkin sem eiga sæti í öryggisráðinu greiddu atkvæði með tillögu Egypta og voru Bandaríkin ein á móti.

Munu ráðfæra sig við hin Norðurlöndin

Nú munu fulltrúar 193 ríkja allsherjarþingsins greiða atkvæði um tillögu þar sem þess er krafist að ákvörðun Trump verði snúið við.

Íslenskir embættismenn munu ræða við fulltrúa hinna Norðurlandanna og í kjölfar þess ákveða hvernig Ísland ráðstafar atkvæði sínu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.