Innlent

HÍ skoðar aukna rafbílavæðingu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
Háskóli Íslands (HÍ) mun meta reynslu og nýtingu af rafmagnsbílum sem keyptir voru í gegnum örútboð Ríkiskaupa á dögunum, með það fyrir augum hvort tilefni sé til aukinnar rafbílavæðingar skólans.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að fimm ríkisstofnanir hefðu fjárfest í sjö rafbílum í gegnum útboðið fyrir alls 25 milljónir króna.

Þrír þessara bíla voru keyptir af HÍ og segir Jón Atli Benediktsson rektor að kaupin megi rekja til HÍ21, stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, þar sem meðal annars eru sett fram markmið um umhverfisvænt starfsumhverfi. Ein af aðgerðunum sem tiltekin er fjallar um að samgöngur og öryggi starfsfólks og nemenda á háskólasvæðinu verði bætt, svo sem með skutlu, starfsmannabílum, gönguleiðum, og fleiru.

„Keyptir voru þrír rafmagnsbílar. Einn bíll verður staðsettur í Neshaga hjá upplýsingatæknisviði HÍ sem þjónustar öll svið HÍ sem dreifð eru víða um bæinn. Einn verður í Aðalbyggingu HÍ og einn við Menntavísindasvið í Stakkahlíð.“

Jón Atli segir að í innkaupaferli sé einnig rafmagnssendibifreið fyrir rekstur fasteigna.

„Bílarnir eru fyrir starfsmenn HÍ til að fara á milli staða þegar þeir sinna vinnutengdum verkefnum. Verði reynslan góð og nýting bílanna mikil mun HÍ meta næsta haust hvort bætt verði við fleiri rafbílum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×