Kjararáð hækkaði sem kunnugt er mánaðarlaun biskups um 18 prósent þann 19. desember síðastliðinn og eru þau eftir hækkun rúmar 1,5 milljónir króna. Hækkunin vakti hörð viðbrögð ekki síst vegna þess að hún er afturvirk til 1. janúar 2017 og mun biskup því eiga von á eingreiðslu upp á 3,3 milljónir króna á nýju ári.

„Við greiðum núna húsaleigu en ekki forverar okkar. Leigan er ákveðin samkvæmt starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar.“
Aðspurð kveðst Agnes ekki vita nákvæmlega hversu há leigan er.
„Þetta er eitthvað tæplega 90 þúsund krónur.“
Í starfsreglunum er kveðið á um að leigan skuli aldrei vera lægri en 36 þúsund krónur á mánuði né hærri en 70 þúsund en þessar fjárhæðir taka breytingum samkvæmt neysluvísitölu og eru ákvarðaðar árlega.
Biskupsbústaðurinn er reisulegt 487 fermetra hús í hjarta miðbæjarins þar sem fasteignamat ársins 2018 nemur 185 milljónum króna. Leigan er því trauðla sligandi miðað við það sem gengur og gerist á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu.
Búsetukvöðin getur þó tekið á, enda oft mikið um að vera í bústaðnum.
„Mér er skylt að búa hérna, þetta er biskupssetur, biskupsgarður, sem þýðir að þetta er líka móttökustaður fyrir móttökur biskups. Ég deili eldhúsi með veisluþjónustu eins og ég segi stundum. Það er bara eitt eldhús í húsinu og maður veit ekki alltaf hver er að vinna í eldhúsinu manns,“ segir Agnes.