Erlent

ISIS-liðar „skjóta upp höfðinu eins og gorkúlur“ í Afganistan

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Minnst fjörutíu eru látnir og tugir særðir eftir sjálfsmorðsprengjuárás í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í morgun. Íslensk kona sem starfar sem fjölmiðlafulltrúi NATO í Afganistan segir ástandið í landinu sífellt verða flóknara. Árásirnar hafi orðið stærri og alvarlegri og ekki sjái fyrir endann á átökum í landinu í bráð.

Árásin var gerð á fréttastofu afganska miðilsins Afghan Voice og á nærliggjandi menningarmiðstöð sjía-múslima í vesturhluta borgarinnar sem urðu illa úti í árásinni. Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins í Afganistan sprungu tvær aðrar sprengjur í nágrenninu í kjölfar árásarinnar. Fjöldi námsmanna var staddur í miðstöðinni þegar sprengjan sprakk en tugir voru fluttir særðir á sjúkrahús og minnst 41 dauðsfall hefur verið staðfest.

Una Sighvatsdóttir hefur undanfarið ár starfað í Kabúl og víðar í Afganistan á vegum NATO. Hún er stödd hér á landi um þessar mundir en henni var mjög brugðið þegar hún fékk fregnir af árásinni í morgun.

„Þetta var mjög stór árás sem var gerð í morgun og ISIS eru búnir að lýsa yfir ábyrgð á henni. Og þetta er svona enn eitt merki um það að það hefur ekki tekist að ráða niðurlögum þeirra á árinu eins og Bandaríkjamenn ætluðu sér. Því miður þá skjóta þeir upp höfðinu þarna eins og gorkúlur,“ segir Una.

ISIS, eða samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, eru tiltölulega ný ógn í landinu að sögn Unu, þótt samtökin hafi mikið látið til sín taka í nágrannalöndunum. Hún segir nokkuð kaldhæðnislegt til þess að hugsa, að viðburðurinn sem stóð yfir í menningarmiðstöðinni þegar árásin var gerð, hafi verið haldinn í tilefni af því að þrjátíu og átta ár eru liðin frá innrás Sovétmanna í Afganistan. Síðan þá hefur stríð verið viðvarandi í landinu.

Una segir ljóst að ekki muni sjá fyrir endann á átökunum á næstunni og hryðjuverkasamtökin geri engan greinarmun á fórnarlömbum sínum. „Þarna er ungt menntað fólk, fjölmiðlamenn, konur og börn. Það er nú það sorglega í þessu,“ segir Una.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×