Það var ekki bara hart barist inni á vellinum þegar Manchester City bar sigurorð af Manchester United í gær, heldur var einnig slegist í göngunum á Old Trafford eftir leik.
Samkvæmt sumum enskum fjölmiðlum var mjólk og vatni skvett á José Mourinho, knattspyrnustjóra United, og Mikel Arteta, aðstoðarmaður Peps Guardiola, stjóra City, var blóðgaður að því er fram kemur í frétt The Guardian.
Leikmenn City fögnuðu sigrinum full vel að mati Mourinhos sem lenti í orðaskaki við Ederson, markvörð City. Mourinho sakaði Ederson um leikaraskap og sagði honum að sýna virðingu.
Fleiri leikmenn og starfsmenn blönduðu sér í deiluna og slagsmál brutust út. Arteta fékk skurð á ennið og samkvæmt heimildum The Guardian þurfti annar aðstoðarmaður Guardiola að fá aðhlynningu.
Lögreglumenn og öryggisverðir þurftu að ganga á milli og bera klæði á vopnin.
Mourinho var þó ekki hættur og fór inn í búningsklefa dómaranna og lét Michael Oliver heyra það. Portúgalinn var ósáttur að United hafi ekki fengið vítaspyrnu í leiknum.
Eftir sigurinn er City með 11 stiga forskot á United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.
Slegist í göngunum | Mourinho og Ederson rifust heiftarlega
Tengdar fréttir

Hægt að spila eins og Barcelona í enska boltanum
Lærisveinar Pep Guardiola í Manchester City eru komnir með ellefu stiga forystu í toppsætinu í ensku úrvalsdeildinni eftir 2-1 sigur á nágrönnum sínum í United í toppslagnum á Old Trafford í gær . City vann sinn fjórtánda deildarleik í röð og jafnaði met Arsenal frá 2002. Ekki fyrsta liðið undir stjórn Guaridola sem stingur af.

Manchester er blá
Manchester City er komið með 11 stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-2 sigur á nágrönnunum í Manchester United á Old Trafford í loka leik 16. umferðar.