Innlent

Telja sykurskattinn hafa verið við lýði í of skamman tíma: Gengu á birgðir sem safnað hafði verið áður en skattheimtan hófst

Birgir Olgeirsson skrifar
Rúmlega 34 prósent af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum.
Rúmlega 34 prósent af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr sykruðum gos- og svaladrykkjum. Vísir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er opin fyrir því að taka upp svokallaðan sykurskatt að nýju og er embætti landlæknis og formaður lýðheilsufræðinga því sammála að hægt sé að stýra neyslu sykurs með skattlagningu.

Vörugjöld á sykur og sætuefni voru hækkuð umtalsvert þann 1. mars árið 2013. 21 mánuði síðar, 1. janúar árið 2015 var þessi svokallaði sykurskattur afnuminn en Rannsóknarsetur verslunarinnar sagði hann ekki hafa minnkað neyslu en aukið tekjur ríkisins um tæpan milljarð.

Niðurstaða rannsóknar Rannsóknarsetur sverslunarinnar var sú að erfitt væri að sjá að markmiðum hefði verið náð.

Verðbreytingar flestra matvara sem voru skattlagðar voru það litlar að ólíklegt væri að neytendur hefðu upplifað hvata til a breyta neyslu sinni að nokkru magni vegna hennar.

Gengu á birgðir sem safnað hafði verið fyrir skattheimtu

Á stórum hluta þess tíma sem sykurskatturinn var við líði gengu framleiðendur og innflytjendur á birgðir sem safnað hafði verið áður en skattheimtan hófst. Á sama tíma lækkaði heimsmarkaðsverð sykurs töluvert og gengi krónunnar styrktist. Því væri hæpið að nægileg reynsla hefði gefist af sykurskattinum til að kveða upp endanlegan dóm um hvernig framleiðendur hefðu háttað viðbrögðum sínum til lengri tíma.

Í niðurstöðu rannsóknarinnar kom fram að að erfitt væri að sjá að neytendur hefðu breytt kauphegðun sinni vegna skattheimtunnar. Verðvitund fyrir smávörum á borð við gos og sælgæti væri slæm, sérstaklega í verðbólguástandi, og sykurskatturinn því ólíklegri til að hafa tilætluð áhrif en til dæmis gjöld á tóbak, þar sem verðvitund væri betri og einstaka kaupákvarðanir varði oftast hærri fjárhæð.

Neftóbak hækkaði umtalsvert í verði um síðustu áramót.vísir/gva
Dró verulega úr munntóbaksneyslu við verðhækkun

Embætti landlæknis hefur kannað hvaða áhrif hækkun tóbaksgjalds hefur á neyslu. Við áramótin 2012 til 2013 var tóbaksgjaldið hækkað um helming og sló það verulega á eftirspurn samkvæmt sölutölum. Var fulltrúi tóbaksvarna hjá embættinu sannfærður um að verðhækkanir dragi úr neyslu og sérstaklega hjá ungu fólki.

Í janúar síðastliðnum sendi embætti Landlæknis frá sér álit þar sem lagt var til að stjórnvöld hækki álögur á gosdrykki þannig að þeir séu að minnsta kosti skattlagðir í samræmi við almenna skattheimtu í landinu og beri þá 24 prósenta virðisauka í stað 11. Einnig ætti að leggja vörugjöld á gosdrykki þannig að hækkunin nemi að minnsta kosti 20 prósentum í heildina.

Fjármunir nýttir til að lækka skatta á hollum vörum

Sagði í tilkynningu frá embættinu um máli að nýta mætti fjármunina til að lækka álögur á grænmeti og ávexti. Einnig ætti að eyrnamerkja hluta af álögunum fyrir starf á sviði heilsueflingar eins og gert er með gjöld á tóbak og áfengi. Þannig gætu stjórnvöld skapað aðstæður sem hvetja til heilbrigðari lifnaðarhátta og aukið jöfnuð til heilsu.

Taldi embættið einnig mikilvægt að upplýsa almenning um heilsufarslegan ávinning af minni sykurneyslu og að fylgjast með og meta hvaða áhrif skattlagning hefur á neysluvenjur.

Óhófleg neysla hér á landi

Embættið sagði sykraða gos- og svaladrykki vega þyngst í sykurneyslu Íslendinga. Er neysla Íslendinga á slíkum drykkjum óhóflega mikil og mun meiri en á hinum Norðurlöndunum. Rúmlega 34 prósent af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr þessum vörum.

Hlutfall feitra er sömuleiðis hæst á Íslandi í Norðurlandasamanburði og eykur sykurneyslan líkur á offitu, tannskemmdum og sykursýki af tegund 2. Dauðsföllum af völdum sykursýki 2 hefur fjölgað hratt en á síðustu fjórum árum hafa fimmtíu af völdum sjúkdómsins en á frá árinu 1996 til 2016 voru það 137 dauðsföll af völdum þess sjúkdóms.

Lagt er til að skattar á sykraða gosdrykki og sælgæti verði hækkaðir. Fréttablaðið/Valli
WHO segir skattahækun áhrifaríka leið

I skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO kemur fram að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Skattlagning ætti að vera ein af forgangsaðgerðum stjórnvalda til að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma.

Í skýrslunni kom fram að mesti ávinningurinn sé af skatt á sykraða drykki og að hann þurfi að vera áþreifanlegur og hækka verð um að minnsta kosti 20 prósent. Þar segir einnig að skattheimta upp á 20 prósent geti dregið úr neyslu um 20 prósent.

Minni neysla samhliða skattahækkunum

Rannsókn Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, og Laufeyjar Steingrímsdóttur, prófessors við Háskóla Íslands, sýndi fram á að fyrir hverja prósentuhækkun á gosdrykkjum minnkar neysla um 1 prósent.

Í skýrslu WHO kom fram að sterkur vísindalegur grunnur sé fyrir því að 10 til 30 prósenta lækkun á álögum á hollum vörum eins og ávöxtum og grænmeti geti verið áhrifarík leið til að auka neyslu á þessum fæðutegundum.

Stjórnvöld verða að bregðast við

Formaður Félags lýðheilsufræðinga, Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, sagði í samtali við Fréttablaðið á dögunum að stjórnvöld yrðu að bregðast við. Hún benti á að félagið sem hún er í forsvari fyrir hefði lagt áherslu á að sykurskattur verði lagður á með breyttu sniði. Hann myndi leggjast á sykraða gosdrykki og sælgæti.

Þegar sykurskatturinn var lagður á síðast lagðist hann einnig á ósykraða drykki, sem Sigríður sagði hafa verið eitt af vandamálunum, ásamt því að sykurskatturinn hefði verið í gildi í of skamman tíma.


Tengdar fréttir

Ekki fullreynt með sykurskatt

Að mati læknis er enginn vafi um ágæti sykurskatts. Segir sykurskatt ekki verið prófaðan almennilega hér á landi. Ísland eina Vestræna landið þar sem álögur á gosdrykki hafa lækkað síðustu ár í stað þess að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×