Innlent

Guðmundur Ingi Guðbrandsson verður ráðherra utan þings

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir verður heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar verður ráðherra utan þings.
Svandís Svavarsdóttir verður heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar verður ráðherra utan þings. vísir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar og félagi í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, verður umhverfisráðherra utan þings í nýrri ríkisstjórn.
Þetta tilkynnti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við Heimi Má Pétursson í beinni útsendingu á Stöð 2 núna klukkan 12.

Hún verður forsætisráðherra eins og áður hefur verið greint frá og þá verður Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon verður forseti þingsins en tillögur varðandi ráðherraefni flokksins og forseta Alþingi voru bornar upp á þingflokksfundi VG nú í hádeginu. Voru tillögurnar samþykktar einróma.

Aðspurð hvers vegna hún hefði sótt ráðherra utan þings sagði Katrín að hún hefði talið mikilvægt að styrkja þingflokkinn með því að sækja ráðherra utan þings en það lægi til að mynda fyrir að eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar væri að efla Alþingi.

Þá sagði hún að það hefði jafnframt haft áhrif á þá ákvörðun að sækja ráðherra utan þings að Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn VG, styðja ekki stjórnarsamstarfið.

Sagðist Katrín telja að Guðmundur Ingi hentaði mjög vel í umhverfis-og auðlindaráðuneytið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.