Þessi lýsing kemur heim og saman við upplifun þeirra íbúa sem Fréttablaðið ræddi við. „Ég held að það séu nú bara flestir rólegir enn þá. Það er svo sem ekkert annað að gera,“ segir Eyþór Sigurðsson á Hofi í Öræfum og Nökkvi Reyr Guðfinnsson, starfsmaður í söluskálanum Freysnesi, er líka sallarólegur. „Ef þetta gerist þá bara gerist þetta. En maður má ekki hræða sig á þessum hlutum,“ segir Nökkvi Reyr.

„En hins vegar eru allir sammála um það að líklegasta skýringin á þessum atburðum, skjálftum sem hafa verið og vísbendingum um landris, sé sú að djúpt undir eldstöðinni sé aukinn kvikuþrýstingur,“ segir Magnús Tumi. „En það eru enn sem komið er ekki vísbendingar um það að gos sé yfirvofandi,“ segir hann.
Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í gær nýjar gervihnattamyndir frá Geimvísindastofnun Evrópu sem sýna að sprungumyndun hefur aukist í miðri öskju Öræfajökuls. Í lok október voru engar sprungur í öskjunni.
„Það er sprungumyndun í Öræfajökli sem er afleiðing af þessu vatnsrennsli. Við verðum bara að fylgjast með þessu, en ekki líta svo á að það sé að fara að skella á eldgos alveg á næstunni,“ segir Magnús Tumi.