Erlent

Munu fyrst ræða saman á nýju ári

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmanna.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmanna. Vísir/AFP
Viðræður Krisilegra demókrata (CDU, CSU) og Jafnaðarmanna (SDP) í Þýskalandi um mögulega stjórnarmyndun munu fyrst eiga sér stað á næsta ári. Frá þessu greinir Julia Klöckner, aðstoðarframkvæmdastjóri CDU, flokks Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

„Það skiptir meira máli að vanda sig en að flýta sér,“ segir Klöckner í samtali við ARD. „Ég á von á því að viðræður hefjist á nýju ári.“

Þingkosningar fóru fram í Þýskalandi þann 24. september síðastliðinn og hefur ekkert gengið að mynda nýja stjórn.

Ákveðið var að reyna myndun stjórnar Kristilegra demókrata, Frjálslynda flokksins og Græningja eftir að bæði Kristilegir demókratar og Jafnaðarmenn misstu mikið fylgi í kosningunum. Viðræður flokkanna sigldu hins vegar í strand í síðustu viku.

Þrýst hefur verið á Martin Schulz, leiðtoga Jafnaðarmanna, að endurskoða afstöðu flokks síns og íhuga aðild að nýrri stjórn, eftir að hann hafði áður sagt flokk sinn ætla að vera í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu.

Kristilegir demókratar og Jafnaðarmenn mynduðu saman stjórn eftir kosningarnar 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×