Erlent

Flóttamenn seldir í þrældóm á uppboði í Líbíu

Atli Ísleifsson skrifar
Uppboðshaldarar segja mennina vera selda til að starfa í landbúnaði.
Uppboðshaldarar segja mennina vera selda til að starfa í landbúnaði.
Fréttainnslag CNN, sem sýnir hvernig flóttamenn eru seldir í þrældóm á uppboði í Líbíu, hefur vakið mikla reiði og leitt til mótmæla í frönsku höfuðborginni París á síðustu dögum. Þá hefur Afríkusambandið fordæmt uppboðin og hafa stjórnvöld í Líbíu tilkynnt að ráðist verði í opinbera rannsókn á málinu.

Mótmælin í París hafa átt sér stað á fyrir utan sendiráð Líbíu þar sem hvatt er til þess að þrælahald verði lagt af og að einangrunarbúðir flóttafólks verði lokaðar í Líbíu. Lögregla í París beitti táragasi á mótmælendur sem margir létu reiði sína bitna á lögreglu.

Frá mótmælaaðgerðum í París fyrr í mánuðinum.Vísir/AFP
New York Times greinir frá því að Moussa Faki Mahamat, framkvæmdastjóri Afríkusambandsins og utanríkisráðherra Tsjad, hafi lýst því yfir að uppboð sem þessi væru „viðbjóðsleg“. Hvatti hann Mannréttindaráð Afríku til að aðstoða yfirvöld í Líbíu að rannsaka málið.

Í frétt CNN kemur fram að fólkið sé selt á jafnvirði um 40 þúsund króna eða meira. Segir að smyglarar séu með þessu að leita nýrra leita til að losa sig við flóttamenn sem bíða eftir að komast til Evrópu.

Alþjóðaflóttamannastofnunin áætlar að milli 700 þúsund og ein milljón flóttamanna hafist nú við Líbíu og að rúmlega tvö þúsund flóttamanna hafi látið lífið þegar þeir hafi reynt að komast sjóleiðina til Evrópu, yfir Miðjarðarhaf.

Innslag CNN má sjá að neðan en þar mætir fréttamaður stöðvarinnar á uppboð í Líbíu þar sem verið er að selja flóttamenn í þrældóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×