Fótbolti

Hope Solo sakar Blatter um kynferðislega áreitni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Blatter og Solo á verðlaunaafhendingunni árið 2013.
Blatter og Solo á verðlaunaafhendingunni árið 2013. Vísir/Getty
Hope Solo, ein af skærustu stjörnum bandarískrar kvennaknattspyrnu, sakar Sepp Blatter um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi á verðlaunaafhendingu FIFA fyrir bestu leikmenn ársins árið 2013.

Í viðtali við portúgalska miðilinn Expresso sem verður opinbert í dag segir hún að Blatter hafi gripið í rass hennar þegar þau voru á sviðinu til að afhenda verðlaun fyrir besta leikmann ársins í kvennaflokki fyrir árið 2012 en liðsfélagi Hope, Abby Wambach, hlaut verðlaunin það árið.

Solo sem lék 202 landsleiki fyrir hönd Bandaríkjanna segir frá því að rétt áður en þau stigu út á sviðið til afhendingar hafi Blatter gripið í rass hennar.

Sagðist hún hafi ekki haft tíma til að átta sig á þessu þar sem komið var að verðlaunaafhendingu en eftir því sem tíminn hafi liðið hafi hún gert sér grein fyrir alvarleika málsins.

Blatter hefur neitað þessu og kallar ásakanirnar fáránlegar en hann var árið 2015 bannaður frá knattspyrnustarfsemi FIFA eftir að hafa stýrt Alþjóðaknattspyrnusambandinu í 27 ár fram að því.

Blatter var dæmdur í sex ára bann frá fótbolta fyrir að borga Michael Platini, fyrrum forseta UEFA, 1,3 milljónir punda undir borðið eða 184 milljónir íslenskra króna. 

„Peningagjöfina“ fékk Platini í tengslum við FIFA-þingið 2011 þegar Blatter var endurkjörinn forseti FIFA en Blatter var bendlaður við hin ýmsu mútumál er hann var forseti sambandsins.


Tengdar fréttir

Bann Blatter stendur að fullu

Sepp Blatter, fyrrum forseti FIFA, tapaði máli sínu fyrir Alþjóðlega íþróttadómstólnum en endanlegur úrskurður CAS kom í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×