Fótbolti

Aron vonast eftir tækifæri hjá nýjum þjálfara

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron hefur fengið fá tækifæri með Werder Bremen í vetur.
Aron hefur fengið fá tækifæri með Werder Bremen í vetur. vísir/getty
Aron Jóhannsson hefur aðeins spilað þrjár mínútur fyrir Werder Bremen í þýsku Bundesligunni það sem af er tímabilinu. Nú er hins vegar kominn nýr maður í stjórastólinn og Aron vonast eftir tækifæri til að sanna sig fyrir nýja stjóranum.

Aron átti fína frammistöðu í vináttuleik gegn Heerenveen í síðustu viku, en þá kom hann inn af varamannabekknum.

„Aron sýndi mér það sem hann hefur sýnt síðan ég kom hingað, að hann er mjög samviskusamur og skuldbundinn okkur,“ sagði Florian Kohfeldt, en hann tók við liðinu í byrjun mánaðarins eftir að Alexander Nouri var látinn fara frá félaginu.

„Hann kom við sögu í mörgum góðum augnablikum í leiknum. Þó hann hafi gert nokkur mistök þá var greinilegt að hann vildi nýta tækifæri sitt.“

Aron meiddist illa fyrsta tímabil sitt hjá Bremen, en hann gekk til liðs við þýska liðið árið 2015. Eftir meiðslin færðist Aron aftar í goggunarröðinni hjá Nouri og hefur hann aðeins komið við sögu í 17 leikjum fyrir Bremen.

„Það byrjar allt á núlli núna,“ sagði Aron eftir leikinn gegn Heerenveen. „Þetta er nýtt upphaf.“

Werder Bremen hefur ekki unnið leik á tímabilinu í úrvalsdeildinni og situr í fallsæti með fimm stig. Liðið mætir Hannover um næstu helgi þegar deildin fer aftur í gang eftir landsleikjahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×