Fótbolti

De Gea: Þeir sem spila ekki á Spáni gleymast

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
De Gea er aðal markvörður spænska landsliðsins
De Gea er aðal markvörður spænska landsliðsins vísir/getty
David de Gea, markvörður Spánar og Manchester Untied, hefur varað Kepa Arrizabalaga við því að yfirgefa heimalandið.

Hinn 23 ára gamli Arrizabalaga er eitt mesta markmannsefni Spánar og hefur verið mikið orðaður við Spánar- og Evrópumeistara Real Madrid, en hann er á mála hjá Athletic Bilbao.

De Gea er af mörgum talinn einn besti markmaður heims, en hann fór til United frá Atletico Madrid árið 2011. Hann hefur einnig verið mikið orðaður við Real, og var svo gott sem búið að ganga frá félagsskiptunum árið 2015 áður en þau duttu upp fyrir á síðustu stundu og hann skrifaði undir nýjan samning hjá enska liðinu.

„Það er ekki fylgst eins mikið með leikmönnum eins og mér, sem yfirgefa Spán, eins og þeim sem spila heima. Fólk gleymir okkur,“ sagði de Gea á blaðamannafundi fyrir vináttulandsleik Spánar og Rússlands í kvöld.

„Kepa er enn mjög ungur. Hann á langan feril fram undan, en hugurinn er á réttum stað. Þegar þú æfir með honum sérðu að hann er mjög góður. Hann er frábær markmaður.“

„Ég er einnig ungur og við erum hér fullir af áhuga fyrir því að hjálpa landsliðinu,“ sagði David de Gea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×