Enski boltinn

Gerrard segir að Liverpool-ungstirnið verði að sýna þolinmæði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rhian Brewster með Gullskóinn.
Rhian Brewster með Gullskóinn. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Liverpool hafa örugglega sprengt upp allar væntingar til Rhian Brewster eftir að strákurinn varð markakóngur og heimsmeistari með 17 ára landsliði Englands á dögunum.

Rhian Brewster skoraði átta mörk í keppninni þar af sjö þeirra í síðustu þremur leikjunum í átta liða úrslitunum (3), undanúrslitunum (3) og úrslitaleiknum (1).

Steven Gerrard er þjálfari átján ára landsliðs Liverpool og í raun þjálfari Rhian Brewster í dag þótt að strákurinn sé farinn að spila upp fyrir sig fyrir löngu.

„Hann verður að sýna þolinmæði,“ sagði Steven Gerrard en hinn sautján ára Rhian Brewster er búinn að vera hjá Liverpool frá því að hann var fjórtán ára. BBC segir frá.

„Við erum með mjög öfluga leikmenn í aðalliðinu og ekki síst í sóknarstöðunum. Það verður því ekki auðvelt fyrir hann að komast í liðið,“ sagði Steven Gerrard.

„Þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara. Þessir krakkar verða að vera í heimsklassa í dag til að komast inn núna,“ sagði Gerrard.

„Skilaboð mín til Rhian eru svona: Vel gert strákur. Þú hefur staðið þig frábærlega og átt skilið allt hrósið sem þú hefur fengið. Hvernig ætlar þú að verða betri leikmaður?,“ sagði Gerrard.

„Við viljum sjá Rhian Brewster spila fyrir öflugt lið Liverpool. Við viljum sjá hann skora fyrir 23 ára liðið og sjá til þess að Jurgen [Klopp] taki eftir honum,“ sagði Gerrard.

Hvort að Rhian Brewster fái tækifæri með aðalliðinu á þessu tímabilinu verður að koma í ljós en hæfileikarnir eru vissulega fyrir hendi. Það sýndi hann svo sannarlega á HM 17 ára landsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×