Innlent

Hvassasta veðrið suðvestan- og vestanlands

Jóhann K. Jóhannsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Fólk er beðið um að huga að lausamunum eins og trampólínum, garðhúsgögnum og ruslatunnum fyrir storminn á morgun.
Fólk er beðið um að huga að lausamunum eins og trampólínum, garðhúsgögnum og ruslatunnum fyrir storminn á morgun. Mynd/Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra
Kröpp lægð gengur yfir landi á morgun en einna hvassast verður á suðvestan- og vestanverðu landinu. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörðun samkvæmt nýju viðvörðunarkerfi á Suðurlandi, Faxaflóa og höfuðborgarsvæðinu.

„Það verður eflaust mjög hvasst á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og hér í bænum,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Byrja á að hvessa á milli þrjú og fjögur síðdegis á morgun, sunnudag. Veðrið nái hámarki um kvöldmatarleytið og er fólk hvatt til að tryggja að lausamunir fjúki ekki af stað.

Ekki er búist við jafnmiklu hvassviðri í öðrum landshlutum en Helga hvetur engu að síður vegfarendur til þess að fylgjast vel með færð og veðri ef þeir ætla að ferðast á milli landshluta annað kvöld. Færð geti spillst á fjallvegum eins og Hellisheiði og Holtavörðuheiði.

„Það má búast við hríðaveðri á Vestfjörðum og á Austfjörðum og Austurlandi að Glettingi seint annað kvöld,“ segir Helga.

Þó að veðrið gangi niður fyrir miðnætti á suðvesturhorninu verði þá enn að bæta í vind á Norðausturlandi en þar er versta veðrinu spáð seint aðra nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×