Í tilkynningu frá Landsneti segir að ekki hafi verið hægt að afhenda rafmagn til Keflavíkurflugvallar og virkjanir á Reykjanesi hafi leyst út. Því hafi rafmagnsleysi verið algjört á svæðinu. Rafmagn var komið aftur á á stórum hluta svæðisins eftir um það bil klukkustund.
Rafmagnsleysið var þó lengra víða og var það vegna bilunar í aflrofa fyrir Suðurnesjalínu 1.
„Erfitt hefur reynst að sinna viðhaldi á rofanum vegna mikilvægis línunnar en ekki hefur verið hægt að taka línuna út þar sem Suðurnesjalína 1 er eina línan sem tengir Suðurnes við meginflutningskerfið.“
Ekki vitað hvað kom fyrir
Spennir HS veitna í tengivirkinu við Öldugötu í Hafnarfirði fór einnig út í gær og notendur í Hafnarfirði og Garðabæ urðu einnig rafmagnslausir í um hálftíma. Samkvæmt tilkynningunni liggur orsökin ekki fyrir.Rimakotslína 1 varð fyrir eldingu rétt fyrir klukkan ellefu. Við það urðu Vík í Mýrdal, nærsveitir og Vestmannaeyjar rafmagnslausar. Það varði í um klukkustund en flokkur frá Landsneti fór meðfram línunni til að kanna skemmdir og hvort hætta stafaði af línunni, þar sem þjóðvegurinn liggur á nokkrum stöðum undir henni.
Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets, mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun og ræddi rafmagnsleysið. Hún segir eldingavara vera í línunum á Reykjanesi en að spennuhækkunin verði svo gríðarleg þegar eldingu slær í slíkar línur að það geti valdið tjóni.
„Í þessu tilfelli gekk illa að koma rofanum inn á Fitjum, út á Reykjanesi, til þess að spennusetja línuna aftur.“
Rimakotslína er tréstauralína og Íris segir Landsnet hafa reynslu af því að eldingar geti farið verulega illa með slíkar linur. Staurarnir sjálfir geti splundrast.