Fótbolti

Íslenskar fótboltastelpur meistarar út um öll Bandaríkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Esther Rós, Ólína Sif og Aníta Sól.
Esther Rós, Ólína Sif og Aníta Sól. mynd/soccer and education USA
Þrjár íslenskar fótboltastelpur fögnuðu á dögunum sæti með sínum liðum í úrslitakeppni NCAA-háskólaboltans sem er efsta deildin í háskólaíþróttum Bandaríkjanna.

Þetta eru Blikinn Ester Rós Arnarsdóttir sem er tvítug, hin 21 árs gamla Ólína Sif Einarsdóttir frá Sauðárkróki og Skagamærin Aníta Sól Ágústsdóttir sem einnig er tvítug.

Esther Rós spilar í sólinni á vesturströndinni með San Diego State en liðið vann sína deild og tekur þátt í úrslitakeppninni. Esther kom fimmtán ára inn í lið Breiðabliks árið 2012 og á 71 leik að baki í deild og bikar hér heima með Breiðabliki, Fjölni og ÍBV.

Ólína Sif og stöllur hennar í Missouri State unnu Missouri Valley-mótið og komust þannig í úrslitakeppnina en þetta verður í fyrsta skipti í 17 ár sem Missouri State tekur þátt í úrslitakeppninni.

Sauðkrækingurinn byrjaði einnig fimmtán ára að spila með meistaraflokki Tindastóls og á 69 leiki að baki fyrir liði í B-deildinni. Hún spilaði ellefu leiki með sínu liði í 1. deildinni í sumar.

Loks varð Skagastúlkan Aníta Sól Ágústsdóttir svo meistari í Sun Belt-deildinni með South Alabama en Skagamærin fékk stórt hlutverk í liðinu á sínu fyrsta ári í háskóla. South Alabama er einnig á leið í úrslitakeppnina.

Stelpurnar þrjár fengu allar skólastyrk í gegnum Soccer and Education USA sem hjálpar íslenskum fótboltakrökkum að fá styrki hjá góðum skólum. Myndirnar voru fengnar frá Instagram-síðu Soccer and Education.

Ólína Sif og þær í Missouri State unnu “Missouri Valley Tournament” og eru á leið í NCAA úrslitakeppnina í fyrsta sinn í 17 ár!

A post shared by Soccer and Education USA (@soccerandeducationusa) on




Fleiri fréttir

Sjá meira


×