Innlent

Afturkallar prestskipun degi fyrir gildistöku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir átti að taka við embætti dómkirkjuprests.
Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir átti að taka við embætti dómkirkjuprests. Vísir/Eyþór.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur afturkallað skipan séra Evu Bjarkar Valdimarsdóttur í embætti dómkirkjuprests. Skipan hennar átti að taka gildi á morgun.

Á vef Þjóðkirkjunnar segir að tildrög þess séu þau að komið hafa fram athugasemdir um að ekki hafi verið réttilega staðið að kosningu kjörnefndar prestakallsins. Sóknarnefnd Dómkirkjusóknar valdi í kjörnefndina en kjósa skal kjörnefnd á aðalsafnaðarfundi eða safnaðarfundi.

Segir þar einnig að þessi annmarki á málsmeðferðinni sé það mikill að mati biskups að endurtaka verður skipunarferlið.

„Til að greiða fyrir því hefur sr. Eva Björk orðið við málaleitan biskups um að skipun hennar verði afturkölluð,“ segir á vef Þjóðkirkjunnar.

Hefur biskup einnig ákveðið að skipa séra Eva Björk héraðsprest í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, frá og með 1. nóvember 2017, en hún átti að taka við embætti dómkirkjuprest á morgun.

Gert er ráð fyrir því að embætti prests við Dómkirkjuprestakall verði auglýst að nýju á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×